Fótbolti

Segja að Mbappé og for­seti PSG hafi öskrað á hvor annan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nasser Al-Khelaifi og Kylian Mbappe létu hvorn annan heyra það á sunnudaginn.
Nasser Al-Khelaifi og Kylian Mbappe létu hvorn annan heyra það á sunnudaginn. getty/Antonio Borga

Kylian Mbappé og forseti Paris Saint-Germain, Nasser Al-Khelaifi, rifust heiftarlega fyrir leik frönsku meistaranna gegn Toulouse um helgina.

Á föstudaginn greindi Mbappé frá því að hann myndi yfirgefa PSG í sumar, eftir sjö ár hjá félaginu. Fréttirnar komu fáum á óvart enda hefur brotthvarf hans legið í loftinu í lengri tíma. Allar líkur eru á því að Mbappé semji við Real Madrid.

Mbappé greindi frá ákvörðun sinni í myndbandi þar sem hann þakkaði samherjum, starfsfólki og stuðningsmönnum PSG fyrir árin sín sjö hjá félaginu. Hann minntist hins vegar ekki einu orði á Al-Khelaifi, eitthvað sem forsetinn var verulega ósáttur við.

Hann boðaði til fundar klukkutíma fyrir leikinn gegn Toulouse á sunnudaginn. Þar rifust þeir Mbappé harkalega samkvæmt Le Parisen og öskruðu á hvor annan. Vegna fundarins hófst upphitun leikmanna PSG seinna en áætlað var. PSG hefur hafnað fréttum af rifrildi Mbappés og Al-Khelaifis.

PSG tapaði leiknum gegn Toulouse, 1-3. Mbappé skoraði mark liðsins en fyrir leikinn bauluðu stuðningsmenn PSG á hann.

Mbappé kom til PSG frá Monaco 2017. Hann er markahæsti leikmaður í sögu félagsins og hefur sex sinnum orðið franskur meistari með því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×