Enski boltinn

Rooney sakar meidda leik­menn United um að vilja ekki spila

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney er ekki ánægður með viðhorf leikmanna Manchester United.
Wayne Rooney er ekki ánægður með viðhorf leikmanna Manchester United. getty/Robbie Jay Barratt

Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, segir að sumir af meiddu leikmönnum liðsins geti vel spilað en vilji það ekki til að forðast gagnrýni.

United tapaði sínum fjórtánda leik í ensku úrvalsdeildinni þegar Arsenal sótti sigur á Old Trafford í gær, 0-1.

Mikil forföll eru í liði United vegna meiðsla. Rooney segir þó að sumir af meiddu leikmönnunum geti vel harkað af sér og spilað en vilji það ekki.

„Sumir af þessum leikmönnum geta spilað, hundrað prósent. En vegna þess að þeir hafa fengið gagnrýni er auðvelt að sitja hjá og bíða eftir bikarúrslitaleiknum og gera sig klára fyrir EM,“ sagði Rooney á Sky Sports í gær.

„Ég hef séð þetta sjálfur í gegnum árin. Leikmennirnir sem eru meiddir eru ekki að baða sig í neinum dýrðarljóma núna og stjórinn tekur sökina á sig.“

United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið mætir Newcastle United og Brighton í síðustu tveimur deildarleikjum sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×