Erlent

Hálfri milljón yrði gert að rýma kæmi til goss

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fjöldi fólks safnaðist saman á torgum Pozzuoli þar sem tugir eftirskjálfta skóku borgina.
Fjöldi fólks safnaðist saman á torgum Pozzuoli þar sem tugir eftirskjálfta skóku borgina. AP/Alessandro Garofalo

Skólum hefur verið lokað og fjöldi fólks svaf í bílum sínum eða á götunni í kjölfar öflugrar skjálftahrinu nærri Campi Flegrei-eldfjallinu í nágrenni Napólíborgar.

Jarðskjálfti upp á 4,4 stig fannst vel í hafnarborginni Pozzuoli og honum fylgdu á annað hundrað eftirskjálftar. Guardian greinir frá því að sprungur hafi myndast í byggingum og að eitthvað hafi verið um hrun úr veggjum. Engin slys urðu þó á fólki eða alvarlegar skemmdir á byggingum.

Kvennafangelsi í úthverfi Pozzuoli var einnig rýmt meðan gáð er að ástandi fangelsisbyggingarinnar. Flytja þurfti 140 fanga burt. Allt í allt þurftu um fjörutíu fjölskyldur að yfirgefa heimili sín. Bráðabirgðatjaldbúðir voru reistar af viðbragðsaðilum við útjaðar borgarinnar þar sem 500 manns vörðu nóttinni.

„Við yfirgáfum heimilið okkar á miðnætti og fórum til sonar okkar í Vomero. Við erum vön skjálftum en þessi var ansi ógnvekjandi þar sem hann var sá stærsti í fjóra áratugi. Við fundum fyrir jörðinni hristast þar sem við gengum,“ hefur Guardian eftir Mimmo Pignatelli, íbúa í Solfatara, bæ við einn 24 gíga Campi Flegrei.

Ekki er talið líklegt að komi til goss en ítalska ríkisstjórnin hefur þó áætlun fyrir rýmingu svæðisins undir höndum geri gígarnir sig líklega. Um hálfri milljón manna yrði gert að rýma nærliggjandi bæi og Napólíborg.

Campi Flegrei er talsvert stærra eldfjall en Vesúvíus, nágranni sinn, sem lagði rómversku borgina Pompei í eyði eins og frægt er árið 79 eftir Krist. Það er einnig talsvert virkara. Campi Flegrei gaus síðast árið 1583.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×