Fótbolti

Þriðji markahæsti lands­liðs­maðurinn leggur skóna á hilluna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mynd sem FIFA birti á samfélagsmiðlum sínum Chhetri til heiðurs. Unnin í myndvinnsluforriti.
Mynd sem FIFA birti á samfélagsmiðlum sínum Chhetri til heiðurs. Unnin í myndvinnsluforriti. X / @fifaworldcup

Indverska knattspynugoðsögnin og þriðji markahæsti landsliðsmaður heims, Sunil Chhetri, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann mun leika sinn síðasta landsleik gegn Kúveit, 6. júní næstkomandi. 

Chhetri er 39 ára gamall og hefur raðað inn mörkum fyrir indverska landsliðið frá frumraun sinni árið 2005. Hann skoraði sitt 94. mark í 150. landsleiknum gegn Afganistan og situr í þriðja sæti á eftir Cristiano Ronaldo og Lionel Messi á lista yfir landsliðsmörk núverandi leikmanna. 

Það vakti athygli fyrir nokkrum árum þegar Indverjar tóku upp hið alíslenska víkingaklapp þegar þeir fögnuðu sigri. Chhetri var fyrirliði og fór fyrir fagnaðarlátunum í leikslok og tók að sér heimsfrægt hlutverk Arons Einars Gunnarssonar eins og sjá má hér fyrir neðan. 

Hann tilkynnti ákvörðunina með tæplega tíu mínútna löngu myndskeiði á samfélagsmiðlum. Kveðjur til kappans hafa raðast inn síðan færslan var birt. 

Honum er eignaður stór hlutur í uppgangi fótbolta á Indlandi, sem hefur í gegnum tíðina verið gefnari fyrir krikket. Chhetri hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín utan vallar, bæði í þágu knattspyrnunnar og almannaheillar. 


Tengdar fréttir

Indverji kominn upp fyrir Lionel Messi

Lionel Messi er ekki lengur næsti maður á eftir Cristiano Ronaldo á listanum yfir markahæstu landsliðsmenn heims sem eru enn að spila með landsliðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×