Skoðun

For­setinn má ekki fara á taugum

Gísli Jökull Gíslason skrifar

Embætti forseta Íslands er síður en svo tilgangslaust embætti. Það er ekki valdamikið í hefðbundum pólitískum skilningi en þegar reynir á er forsetinn sameiningartákn þjóðarinnar. Forseti Íslands þarf að vera yfirvegaður, hafa jafnaðargeð og á stundum stáltaugar. Það þarf að vera reisn yfir forsetanum þegar á móti blæs og forsetinn þarf að þola gagnrýni, jafnvel ómálefnalega gagnrýni. Eitt af því sem ég hef kunnað að meta við Katrínu Jakobsdóttur er að hún er yfirveguð og talar ekki illa um aðra. Jafnvel þegar það er ómaklega að henni vegið persónulega. Það hefur líka reynt á Katrínu á erfiðum tímum, heimsfaraldur, eldgos og jarðskjálftar. Í þeim málum hefur hún staði sterk og þar hefur líka reynt á annan mannkost sem Katrín hefur til að bera, hún vinnur vel með öðrum. Hún hefur verið í forystu ríkisstjórnar ólíkra flokka sem hafa staðið saman á erfiðum tímum, hún hefur unnið vel með fagfólki sem þekkir hana af góðu þannig að það kemur fram til að lýsa stuðningi við hana. Þá hefur hún þegar notið hylli á meðal ráðamanna annara landa. Allt þetta ber merki um sterka persónu sem er sanngjörn og fagleg. Þegar ég styð Katrínu þá veit ég hvernig hún hefur staðið sig á raunastund. Hjá Katrínu hefur þegar reynt á alla þá mannkosti sem forseti Íslands þarf að hafa og hún hefur gert það vel. Þess vegna kýs ég Katrínu.

Höfundur er lögreglumaður og rithöfundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×