Körfubolti

Jóhann: Brotnuðum auð­veld­lega

Árni Jóhannsson skrifar
Ólafru Ólafsson steinhissa. Mögulega á frammistöðu sinna manna
Ólafru Ólafsson steinhissa. Mögulega á frammistöðu sinna manna Vísir / Anton Brink

Þjálfari Grindvíkinga þótti sínir menn slakir og var það varnarfærslurnar sem voru ekki góðar þegar hans menn lutu í gras fyrir Val í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn. Lokatölur 89-79 og Grindvíkingar þurfa að kvitta fyrir frammistöðuna í næsta leik.

„Við vorum slakir í þriðja leikhluta“, var stutta svarið þegar Jóhann Þór Ólafsson var spurður að því hvað útskýrði það að hans menn fengu á baukinn í N1 höllinni í kvöld.

„Við gáfum þessu séns í fjórða en varnarfærslur og holningin á okkur í seinni hálfleik var bara ekki nógu góð. Á móti svona góðu liði eins og Val þá er þetta niðurstaðan þegar svo er. Það er allavega svona í fljótu bragði.“

Staðan var 37-37 í hálfleik. Fannst Jóhanni spilamennskan gefa það til kynna að þessi þriðji leikhluti væri á leiðinni?

„Við töluðum um það í hálfleik að mér fannst það gegnum gangandi að við gáfum varnarplaninu okkar aldrei séns. Ég er mjög svekktur með það. Einnig það hvernig við brotnum við þetta litla mótlæti sem við lendum í í byrjun seinni hálfleiks. Það er eitthvað sem við þurfum að laga.“

Hvað útskýrir það að þeir brotna svona auðveldlega?

„Bara ef ég vissi það. Við förum yfir þetta og þetta er bara leikur eitt. Við þurfum að finna lausnir og mætum klárir á mánudaginn og verjum heimavöllinn.“

Kristinn Pálsson setti niður fjóra þrista í upphafi seinni hálfleiks. Fannst Jóhanns sniðugt að skilja hann eftir opinn eða var þetta dæmi um lélega vörn?

„Hvað á ég að segja Andri? Þetta er ábyggilega lélegasta spurning sem þú hefur komið með frá því að þú byrjaðir að taka viðtöl við mig. Þetta var slök vörn, við vorum að færa vitlaust og þetta var lélegt af okkar hálfu.“

„Þeir voru bara grimmari en við í öllu sem þeir voru að gera. Svo vorum við að klikka á fleiri skotum en þeir“, sagði Jóhann þegar hann var spurður út í það afhverju hans menn töpuðu frákastabaráttunni 49-31.

Það fór ekki bara líkamleg orka í einvígið á móti Keflavík heldur var andlega orkan sem fór í það einvígi mikil. Hafði það áhrif í dag?

„Nei alls ekki. Við vorum ferskir og komum inn í þetta flottir. Við brotnuðum bara auðveldlega eins og ég sagði áðan.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×