Magnaður endur­komu­sigur Liver­pool með Nu­nez í hlut­verki hetju

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nunez fagnar öðru marka sinna í dag.
Nunez fagnar öðru marka sinna í dag. Vísir/Getty

Liverpool vann frábæran endurkomusigur gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í dag. Einum færri tókst Liverpool að snúa leiknum sér í vil og varamaðurinn Darwin Nunez reyndist hetjan undir lokin.

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir Liverpool. Strax í upphafi fékk Trent Alexander-Arnold gult spjald og skömmu síðar vildu leikmenn Newcastle fá seinna spjaldið á Alexander-Arnold en John Brooks sleppti enska landsliðsmanninum.

Newcastle náði forystunni skömmu síðar. Áðurnefndur Alexander-Arnold gerði þá skelfileg mistök, Anthony Gordon slapp einn í gegn og kláraði frábærlega undir Alisson.

Stuttu seinna fékk Virgil Van Dijk síðan beint rautt spjald fyrir að brjóta á Alexander Isak sem var að sleppa í gegnum vörn Newcastle. Van Dijk var afar ósáttur með spjaldið, vildi meina að hann hefði farið í boltann en Brooks stóð fast á sínu og VAR staðfesti spjaldið skömmu síðar.

Einum fleiri voru Newcastle sterkari aðilinn. Alisson í marki Liverpool bjargaði liðinu á stórkostlegan hátt þegar hann varði skot Miguel Almiron í þverslána og staðan 1-0 í hálfleik. Liverpool náði ágætum köflum inn á milli en gekk erfiðlega að halda boltanum.

Í upphafi seinni hálfleiks sóttu leikmenn Newcastle meira og flest benti til þess að liðið myndi bæta við mörkum. Jurgen Klopp gerði breytingar á sínu liði og Eddie Howe gerði þrefalda skiptingu á 72. mínútu og skipti Anthony Gordon meðal annars útaf sem hafði verið besti maður Newcastle í leiknum.

Ótrúlegur viðsnúningur

Við þessa breytingu var eins og Liverpool fengi vítamínssprautu. Darwin Nunez og Harvey Elliott komu sterkir inn af bekknum og þegar Sven Botman urðu á mistök í vörn heimamanna á 81. mínútu var Nunez ekki lengi að nýta sér þau og kláraði færi sitt frábærlega.

Bæði lið fengu sóknir eftir jöfnunarmarkið. Í uppbótartíma átti Mohamed Salah hins vegar frábæra stundusendingu innfyrir á Nunez sem kláraði virkilega vel í annað sinn. Staðan 2-1 fyrir Liverpool sem urðu lokatölur leiksins.

Ótrúleg endurkoma og lærisveinar Eddie Howe hljóta að naga sig duglega í handarbökin fyrir að hafa misst forystu niður í tapaðan leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira