Körfubolti

Úlfarnir einum sigri frá því að senda Sólirnar í sumar­frí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards skoraði 36 sigri þegar Minnesota Timberwolves sigraði Phoenix Suns í nótt, 109-126.
Anthony Edwards skoraði 36 sigri þegar Minnesota Timberwolves sigraði Phoenix Suns í nótt, 109-126. getty/Christian Petersen

Stjörnum prýtt lið Phoenix Suns er einu tapi frá því að fara í sumarfrí. Phoenix tapaði fyrir Minnesota Timberwolves í nótt, 109-126, og er 3-0 undir í einvígi liðanna í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Úlfarnir voru mun sterkari aðilinn í leiknum í Phoenix í nótt og leiddu allan tímann.

Anthony Edwards skoraði 36 stig fyrir Minnesota og Rudy Gobert var með nítján stig og fjórtán fráköst. Karl-Anthony Towns skoraði átján stig og tók þrettán fráköst.

Bradley Beal skoraði 28 stig fyrir Phoenix, Kevin Durant 25 og Devin Booker 23 auk þess að gefa átta stoðsendingar.

Dallas Mavericks komst í 2-1 í einvíginu gegn Los Angeles Clippers með ellefu stiga sigri í þriðja leik liðanna, 101-90.

Varnarleikur Dallas var sterkur og það kom ekki að sök þótt Luka Doncic hafi hitt illa. Hann skilaði samt 22 stigum, tíu fráköstum og níu stoðsendingum. Kyrie Irving var með 21 stig.

James Harden og Norman Powell skoruðu 21 stig hvor fyrir Clippers en Kawhi Leonard og Paul George voru aðeins með sextán stig samtals.

Indiana Pacers tók forystuna í einvíginu gegn Milwaukee Bucks í Austurdeildinni með því að vinna þriðja leik liðanna, 121-118, eftir framlengingu.

Tyrese Haliburton skoraði sigurkörfu Indiana þegar 1,6 sekúndur voru eftir. Hann hitti aðeins úr einu af tólf þriggja stiga skotum sínum en var þrefalda tvennu, þá fyrstu í úrslitakeppni á ferlinum. 

Haliburton skilaði átján stigum, tíu fráköstum og sextán stoðsendingum. Miðherjinn Myles Turner var stigahæstur hjá Indiana með 29 stig.

Khris Middleton átti stórleik fyrir Milwaukee og skoraði 42 stig. Damian Lillard skoraði 28 stig og Bobby Portis var með sautján stig og átján fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×