Skoðun

Halla Hrund eða Katrín?

Reynir Böðvarsson skrifar

Það er orðið nokkuð ljóst að þær eru tvær sem koma til með að berjast um embætti forseta Íslands. Því miður er Steinunn Ólína úr leiknum og ég held að bæði Baldur og Halla Tómasdóttir hafi ekki heldur mikla möguleika á að ná miklu meira fylgi. Baldur hefur að sjálfsögðu mikið fylgi hæfur sem hann er en ég held að stór hluti þjóðarinnar eigi erfitt með að sætta sig við sögu hans hvað varðar hernaðar og varnarmál. Hann er augljóslega stuðningsmaður stefnu stjórnvalda undanfarin ár hvað varðar aukna þátttöku Íslands í Nato sem er náttúrulega hernaðarbandalag. Halla Tómasdóttir er auðvitað frambærilegur kandídat sem margir hrífast að, hún hefur aukið fylgi sitt markvert síðustu vikur, en hún á sér mögulegt fylgi aðeins meðal þess hluta þjóðarinnar sem sætta sig við hugmyndir Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar þegar kemur að þjóðfélagsgerðinni. Nýfrjálshyggjan og einstaklingshyggja sett framar samstöðu og samvinnu þótt mikilvægi samstöðu sé allavega í orði hampað. Ég held að bæði Baldur og Halla Tómasdóttir hafi nálgast maximum í skoðunarkönnunum og geti ekki fengið kosningaúrslit langt yfir því sem sést þar.

Því eru þær tvær eftir að mínu mati sem hafa raunverulega möguleika á að vinna þessar kosningar, Halla Hrund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir. Það kæmi mér á óvart ef önnurhvor þeirra yrði ekki kosin sem forseti lýðveldisins. Það er náttúrulega einstakt að hafa tvo svona frambærilega kandídata að velja á milli. Manni verður hugsað til BNA og forsetakosninganna þar. Donald Trump og Biden. Af einhverjum ástæðum hefur þeim ekki tekist að kjósa til dæmis Bernie Sanders í það embætti, að mínu mati frambærilegasta kandídat þar. Við höfum nú í okkar forsetakosningum frábæra kandídata að velja á milli og þá kemur að okkur að velja. Er það bakgrunnur þeirra, starfsferill eða persónuleiki sem við leggjum áherslu á eða bara eitthvað allt annað. Ég veit ekki hvað ykkur finnst, ég mundi sætta mig vel við báða þessa kandidata, Höllu Hrund og Katrínu. Ég hef auðvitað eins og margir fyrrum kjósenda VG verið vonsvikin yfir því að Katrín og VG fóru í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Ég tel einfaldlega Sjálfstæðisflokkinn ekki stjórnhæfann vegna spillingar. þrátt fyrir þetta tel ég Katrínu mjög hæfa sem húsbóndi á Bessastöðum og auðvitað mundi hún vera okkur til sóma á erlendri grundu eins og hingað til.

Það sem gerir að ég vill Höllu Hrund á Bessastaði er fremst hennar persónuleiki og einnig hennar augljósi vilji að vinna að almannahag og sjálfbærni í nýtingu auðlinda. Hún hefur sýnt það í verki sem orkumálastjóri og verið óhrædd við að fara jafnvel í þeim málum gegn vilja ráðherra málaflokksins. Þetta er held ég sjaldgæft og sýnir að hún hefur bein í nefinu og lætur ekki að stjórn. Ég held þó að hún muni láta að stjórn þjóðarviljans kæmi til klofnings á milli hans og þings og eða ríkisstjórnar. Halla Hrund er einfaldlega með svo sterka sjálfsmeðvitund og réttlætiskennd að hún kemur til með að þora ef aðstæður krefja. Sem betur fer kemur líklega ekki til þessa og þá er yfirlýstur vilji hennar til þess að sameina fólk í verkefnum út um allt land og á ýmsum sviðum sem sannarlega er trúverðugt þegar maður horfir á starfsferil hennar, bæði innanlands og utan. Ég tel einnig ómældar kost liggja í því að hún hafi búið og starfað erlendis í mörg ár og vakið eftirtekt fyrir störf sín á alþjóða vettvangi.

Höfundur er jarðskjálftafræðingur á eftirlaunum



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×