Innlent

Tólf tíma tökudagar og svo forsetaframboð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jón Gnarr hefur nóg að gera um þessar mundir.
Jón Gnarr hefur nóg að gera um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Jón Gnarr hefur í nógu að snúast þessa dagana þar sem auk forsetaframboðsins leikur hann í leikriti í Borgarleikhúsinu og í nýjum íslenskum sjónvarpsþáttum. Hann segir það taka allt að fjórar klukkustundir að sminka hann. Tökudagar hefjist klukkan sex að morgni og er tólf klukkutíma langur.

Á kvöldin vinni hann að kosningamálum en þarf að vera sofnaður í síðasta lagi klukkan tíu.

„Ég var meðvitaður um þetta áður en ég ákvað að bjóða mig fram til forseta og að þetta gæti orðið nokkuð krefjandi. En ég ákvað að slá til. Og Jóga eiginkona mín styður mig 100% og stendur með mér í þessu öllu,“ skrifar hann í færslu á síðu sína á Facebook.

Hann segist njóta þeirrar blessunar að vera með ADHD sem hann meðhöndlar ekki með lyfjum.

„Það má segja að ég sé Full HD þessa dagana,“ segir Jón.

„Í gær vann ég 12 tíma vinnudag og fór svo í tveggja tíma kappræður á RÚV og fannst ég bara standa mig ágætlega. Ég var mættur í sminkið kl. 6 í morgun. Þegar tökudegi lýkur fer ég beint niðrí Borgarleikhús og er þar í leiksýningu frá 8-11. (Sem betur fer síðasta sýningin),“ segir Jón.

Jón segist ekki barma sér fyrir þetta heldur vill hann upplýsa fólk um stöðu sína. Það sé alltaf nóg að gera fyrir hann og fyrir það segist hann þakklátur.

„Mun reyna að fara sem víðast og nýta helgar og helgidaga. Sendi annars hlýju til ykkar allra og hlakka til að hitta ykkur hingað og um okkar yndislega land,“ skrifar Jón.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×