Enski boltinn

Sú marka­hæsta með tár á hvarmi er hún til­kynnti brott­hvarf sitt frá Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kirby í 4-3 tapi Chelsea gegn Liverpool á dögunum.
Kirby í 4-3 tapi Chelsea gegn Liverpool á dögunum. Naomi Baker/Getty Images

Enska landsliðskonan Fran Kirby hefur gefið út að hún muni yfirgefa Chelsea að tímabilinu loknu. Hún er sem stendur markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 115 mörk í 205 leikjum.

Hin þrítuga Kirby var í tilfinningaþrungnu viðtali við vefsíðu félagsins þar sem hún staðfesti að hún væri á förum. Hún sagði það forréttindi að hafa unnið til allra þeirra verðlauna sem hún hafði unnið með félaginu sem og að spila með þeim leikmönnum sem hún hefur spilað með undanfarinn áratug.

„Að vinna titla er ótrúlegt en að spila með fólkinu sem ég hef hitt hefur verið frekar magnað. Fyrir unga stelpu frá Reading þá er þetta ekki slæmt,“ bætti Kirby við.

Hún hefur unnið sex Englandsmeistaratitla, fimm bikartitla og tvo deildarbikartitla sem leikmaður Chelsea. Var hún valin leikmaður ársins af blaðamönnum tímabilið 2017-18 þar sem hún skoraði 25 mörk í 31 leik.

Kirby hefur spilað 70 A-landsleiki og skorað 19 mörk fyrir England. Hún byrjaði alla leikina á EM 2022 þegar Ljónynjurnar fóru alla leið og urðu Evrópumeistarar.

Kirby hefur glímt við erfið meiðsli og veikindi á sínum ferli. Missti hún til að mynda af HM á síðasta ári vegna meiðsla.

„Það var í meiðslunum og veikindunum sem ég eignaðist vini til lífstíðar. Ég mun aldrei gleyma að sama hversu illa mér leið á þeim augnablikum þá var ég alltaf elskuð og fann fyrir miklum stuðning,“ sagði Kirby að lokum.


Tengdar fréttir

Fjöldi stór­stjarna missir af HM vegna meiðsla

Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu nálgast óðfluga. Mótið hefst á fimmtudag, 20. júlí, og verður fjöldi magnaðra leikmanna í sviðsljósinu. Það er hins vegar ljóst að fjölmargar mun vanta þar sem þær eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×