Körfubolti

Veikur og meiddur Doncic fór á kostum og Boston flaug á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Jaylen Brown með troðslu gegn Miami Heat í gærkvöld.
Jaylen Brown með troðslu gegn Miami Heat í gærkvöld. AP/Charles Krupa

Boston Celtics slógu Miami Heat út með þægilegum hætti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta og eru komnir í undanúrslit austurdeildarinnar. Dallas Mavericks er einum sigri frá því að slá út LA Clippers.

Boston vann einvígið við Miami 4-1 og það var lítil spenna í leik liðanna í gærkvöld sem Boston vann 118-84. Boston-menn settu niður átta þrista í fyrsta leikhluta og komust í 41-23. Þeir voru 68-46 yfir í hálfleik og héldu öruggu forskoti út leikinn.

Liðin skiptast þar með áfram á að slá hvort annað út í úrslitakeppninni því í fyrra var það Miami sem hafði betur.

Derrick White og Jaylen Brown skoruðu 25 stig hvor fyrir Boston og engu máli skipti að Kristaps Porzingis missti af leiknum vegna meiðsla. Bam Adebayo skoraði 23 stig fyrir Miami en meiðsli hafa gert liðinu erfitt fyrir.

Næsta einvígi Boston verður við sigurliðið úr einvígi Cleveland Cavaliers og Orlando Magic, þar sem Cleveland er 3-2 yfir en liðin mætast næst á laugardaginn í Orlando.

Í vesturdeildinni unnu Dallas Mavericks 123-93 sigur á LA Clippers og eru því 3-2 yfir, en næsti leikur er í Dallas á morgun.

Luka Doncic átti glimrandi leik þrátt fyrir meiðsli í hné og veikindi, og skoraði 35 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók sjö fráköst fyrir Dallas.

Doncic sagði vissulega hafa verið erfitt að spila en að adrenalínið hefði hjálpað honum.

„Þegar maður er byrjaður þá vill maður gera allt sem maður getur til að liðið manns vinni. Ég vildi bara halda áfram,“ sagði Doncic.

Aðalstigaskorari Clippers, Kwahi Leonard, glímir einnig við hnémeiðsli og var ekki með, en þeir Paul George og Ivica Zubac skoruðu 15 stig hvor fyrir liðið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×