Erlent

Flug­vél Atlanta á tæpasta vaði í Ríad

Árni Sæberg skrifar
Flugvélin er merkt þjóðarflugfélagi Sádi-Arabíu en er í eigu Air Atlanta.
Flugvélin er merkt þjóðarflugfélagi Sádi-Arabíu en er í eigu Air Atlanta. Fabrizio Gandolfo/Getty

Stjórnendum Boeing 747 þotu íslenska flugfélagsins Air Atlanta varð á í messunni þegar taka átti á loft frá flugvellinum í Ríad í Sádi-Arabíu á dögunum. Nauðhemla þurfti þegar í ljós kom að röng beygja hafði verið tekin inn á akstursbraut í stað flugbrautar í aðdraganda flugtaks. Flugvélin staðnæmdist um þrjátíu metrum frá enda akstursbrautarinnar.

Í umfjöllun flugmiðilsins Aerotime segir að rannsókn sé hafin á atvikinu, sem varð þann 22. apríl. Henni sé ætlað að leiða í ljós hvernig atvikið gat átt sér stað og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Þar segir að þotan, sem er flutningavél í þjónustu ríkisflugfélags Sádi-Arabíu, hafi náð ríflega 200 kílómetra hraða áður en stjórnendum hennar varð vart um að þeir væru að taka á loft af akstursbraut og stigu á bremsuna.

Þá segir að svipað atvik hafi átt sér stað á sömu akstursbraut árið 2018. Þá hafi stjórnendur 737 þotu Jet Airways farið inn á akstursbrautina haldandi að þeir væri að beygja inn á sömu flugbraut og vél Atlanta átti að beygja inn á. Þá hafi ekki tekist að stöðva vélina í tæka tíð og hún endað út af brautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×