Körfubolti

„Big Baby“ dæmdur í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glen Davis í leik með Boston Celtics í NBA deildinni í körfubolta.
Glen Davis í leik með Boston Celtics í NBA deildinni í körfubolta. Getty/Nick Laham

Fyrrum NBA leikmaðurinn Glen Davis var í gær dæmdur í fjörutíu mánaða fangelsi af alríkisdómara fyrir að reyna að svíkja pening út úr heilbrigðisbótakerfi NBA deildarinnar.

Auk þess að fá þennan fangelsisdóm þá fékk hann að auki þriggja ára skilorðsbundin dóm.

Davis, þekktur undir gælunafni sínu „Big Baby“, hafði verið dæmdur sekur 23. nóvember síðastliðinn. 22 fengu dóm í þessu stóra svikamáli þar á meðal átján fyrrum leikmenn í NBA-deildinni.

Meðal þeirra leikmanna eru Terrence Williams og Keyon Dooling.

Svindlið snerist um að búa til reikninga fyrir læknisþjónustu sem fór aldrei fram og rukka síðan deildina um bætur vegna þeirra.

Hinn 38 ára gamli Davis hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Hann var líka dæmdur til að skila aftur áttatíu þúsund dollurum eða 11,2 milljónum króna.

Will Bynum, annar fyrrum NBA-leikmaður, var dæmdur í átján mánaða fangelsi í síðasta mánuði, fyrir að ljúga að kviðdómi.

Davis er þekktastur fyrir að vera í meistaraliði Boston Celtics árið 2008. Hann lagði skóna á hilluna eftir 2014-15 tímabilið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×