Körfubolti

Feðgar þjálfa Breiða­blik: „Gott fyrir okkur báða að vera saman“

Aron Guðmundsson skrifar
Feðgarnir Hrafn Kristjánsson og Mikael Máni Hrafnsson, aðalþjálfarateymi Breiðabliks
Feðgarnir Hrafn Kristjánsson og Mikael Máni Hrafnsson, aðalþjálfarateymi Breiðabliks Vísir/Bjarni

Feðgarnir Hrafn Kristjáns­son og Mikael Máni Hrafns­son munu saman þjálfa karla­lið Breiða­bliks í fyrstu deildinni í körfu­bolta á næsta tíma­bili. Eðli­leg lokun á ein­hvers konar hring segir faðirinn en Mikael hefur verið, frá sex ára aldri, með ein­hverjum hætti við­loðandi hans þjálfara­feril.

Hrafn, sem hefur á sínum þjálfara­ferli unnið allt sem hægt er að vinna hér á landi, segist sjálfur hafa verið sáttur í eigin skinni með það að hætta í þjálfun. Hann segir það hjart­næmt að fá þetta tæki­færi núna með syni sínum tví­tuga sem er kominn í sitt fyrsta aðal­þjálfara­starf hjá meistara­flokki.

„Þetta er of­boðs­lega gefandi. Ég var í rauninni orðinn sáttur í eigin skinni með það hætta í þjálfun,“ segir Hrafn. „Yngri bróðir Mikaels, hann Alexander Jan, dró mig eigin­lega að þjálfun aftur. Ég byrjaði sem sagt að þjálfa sex­tán til sau­tján ára stráka í Breiða­bliki núna á síðasta tíma­bili. Það er flokkurinn hans Alexanders. Svo núna. Þegar að þessi mögu­leiki kom upp. Þá finnst mér þetta vera eðli­leg lokun á ein­hvers konar hring. Að ég komi inn í þetta hjá Breiða­bliki. Við upp­haf Mikaels á hans veg­ferð í þessari þjálfun.“

Hrafn og Mikael eru aðal­þjálfara­t­eymi Breiða­bliks.

„Það var í rauninni bara leitað til okkar þegar að var ljóst að Ívar Ás­gríms­son myndi ekki halda á­fram sínu góða starfi hér. Það er mikill vilji hér innan veggja Breiða­bliks að nýta sér krafta Mikaels Mána og þetta var í rauninni aldrei rætt á neinum öðrum for­sendum en að við myndum gera þetta saman.“

Ívar Ásgrímsson hélt utan um þjálfun Breiðabliks á síðasta tímabili. Mikael er afar þakklátur fyrir traustið sem hann fékk frá honum. Vísir/Anton Brink

Feðgar sem teymi aðal­þjálfara. Fyrsta aðal­þjálfara­starf hins tví­tuga Mikaels sem er afar efni­legur þjálfari. Hann fékk smjör­þefinn af meistara­flokks­þjálfun hjá Ívari Ás­gríms­syni, frá­farandi þjálfara Breiða­bliks, á yfir­standandi tíma­bili og er klár í meira.

„Þetta er bara skemmti­legt verk­efni hér í Smáranum hjá upp­eldis­fé­lagi mínu. Ég vil þakka Ívari fyrir það traust sem hann gaf mér í vetur. Ekki bara fyrir það að hafa fengið að vera á bekknum. Heldur einnig fyrir þá á­byrgð sem hann gaf mér. Vonandi náum við að byggja ofan á það verk­efni sem hann hóf hér. Að gefa ungum leik­mönnum vett­vang til að spila í meistara­flokki.“

Mikael Máni, aðeins tvítugur að aldri, hefur tekið við fyrstu aðalþjálfarastöðu sinni í meistaraflokki. Efnilegur þjálfari þarna á ferð.Vísir/Bjarni

Hann segir á­hugann á þjálfun hafa komið náttúru­lega til sín.

„Byrjaði fyrst, fyrir um fimm árum síðan, þegar að ég hóf að þjálfa yngri flokka hjá Breiða­bliki og vann mig svo hægt og bítandi upp. Svo fattaði maður það að maður er betri þjálfari heldur en leik­maður. Maður heldur sig því bara við þjálfara­starfið.“

Og Mikael hefur verið við­riðinn þjálfara­feril föður síns frá um sex ára aldri.

Hrafn Kristjánsson hefur á sínum þjálfaraferli unnið titla með liðum á borð við Stjörnunni og KR. Vísir/Bára

„Þegar að ég fann að á­huginn var alltaf að verða meiri og meiri. Þá sem þjálfari Álfta­ness í fyrstu deildinni. Þá fór það að gerast oftar og oftar að Mikael sat með mér, þegar að ég var að horfa á upp­tökur af næsta and­stæðingi, og kom fram með hug­myndir,“ segir Hrafn. „Og á síðasta tíma­bili mínu með lið Álfta­ness var Mikael Máni með mér á bekknum og tók fullan þátt í undir­búningi okkar fyrir næsta and­stæðing. Þá sá maður til dæmis að hann er langt á undan þeirri körfu­bolta­hugsun sem að ég bjó til dæmis yfir á hans aldri.“

„Ég hlakka rosa­lega mikið til að sjá hvert þetta leiðir hann. Á sama tíma held ég að það sé gott fyrir okkur báða að vera saman í þessu núna. Ég mun geta fylgst með öðrum þáttum þjálfunar heldur en bara taktík sem er kannski nauð­syn­legt fyrir Mikael að bæta við sig í þjálfun. Þetta verður gefandi fyrir okkur tvo. Ég er viss um það.“

Sviðið er ungu leikmannanna

Breiða­blik fékk það hlut­skipti að falla úr efstu deild og mun því leika í fyrstu deild á næsta tíma­bili. Það kvarnast úr kjarna liðsins en feðgarnir eru með fast mótaða stefnu sem þeir vilja inn­leiða hjá liðinu.

„Ég myndi nú segja að við værum nokkurn veginn á sömu blað­síðu til að mynda hvað hug­mynda­fræði okkar varðar fyrir næsta tíma­bil. Hvernig við viljum spila þetta,“ segir Mikael Máni. „Við viljum spila á ungum leik­mönnum Breiða­bliks frekar en að vera taka inn eitt­hvað mikið af að­keyptu vinnu­afli. Í sam­einingu í sumar fáum við svo frekari vís­bendingar um það hvernig við viljum að liðið spili. Út frá því hvaða leik­menn verða okkur innan handar.“

Frá leik Breiðbliks gegn Stjörnunni í Subway deildinni

„Þetta verður skemmti­legt verk­efni að eiga við. Það eru mjög sterkir hópar af leik­mönnum að koma upp hjá Breiða­bliki. Alveg frá tólf ára aldri. Við viljum sýna þessum yngri leik­mönnum að það verði vett­vangur fyrir þá hér hjá Breiða­bliki í fram­tíðinni. Helsta verk­efni okkar sem körfu­bolta­hreyfingu er að leik­menn fái tæki­færi í meistara­flokki. Við höfum verið að sjá mikið brott­fall frá fyrsta ári í fram­halds­skóla. Við viljum draga úr því brott­falli sem mest.“

Og Hrafn tekur svo boltann.

„Það var á­kveðinn kjarni leik­manna, sem var að skila mínútum í efstu deild fyrir Breiða­blik á ný­af­stöðnu tíma­bili, sem stefnir í að verði ekki hjá okkur á­fram. Okkar stefna er að gera þeim ungu leik­mönnum, sem eru enn hér, það ljóst að það er spennandi verk­efni fyrir þá hér. Það þarf þó að vera visst jafn­vægi í þessu. Þessir ungu leik­menn þurfa að fá þannig hjálp að við séum að keppa, séum sam­keppnis­hæfir í hverjum einasta leik. Við viljum fá er­lenda leik­menn inn til að gera liðið enn sterkara.

Helst myndum við vilja sleppa sem mest við að tala við ís­lenska leik­menn sem mögu­lega eru með ör­lítið meiri reynslu en þeir ís­lensku leik­menn sem fyrir eru hjá okkur. Við vitum ekki alveg hver gróðinn yrði af því. En að því sögðu verðum við að ræða við ein­hverja og erum þá að líta til ungra og efni­legra leik­manna sem eru í sömu sporum og okkar ungu leik­menn. Að leita sér að tæki­færi og ein­hverju um­hverfi þar sem þeir fá að prófa sig á þó því stóra sviði sem fyrsta deildin er. Veru­lega góð deild.“

Ekki metnaður að eyða peningum sem ekki eru til staðar

Á ný­af­stöðnu tíma­bili fyrir Blika var körfu­knatt­leiks­deild fé­lagsins oft gagn­rýnd fyrir metnaðar­leysi en Hrafn segir að á­huginn innan körfu­knatt­leiks­deildar fé­lagsins sé mikill á því að reyna vinna hlutina vel.

„Það er góður fjöldi leik­manna í flokkunum okkar. Mikið af mjög efni­legum leik­mönnum. Það er til staðar. Að því sögðu er þetta náttúru­lega í grunninn fé­lag sem hefur náð of­boðs­lega miklum árangri í kringum fót­boltann. Þar er rekið mikið batterí. Við erum að vinna í því að gera okkar rödd sterkari hér innan­húss og viljum sýna metnað.“

Frá leik Breiðabliks gegn Tindastól á tímabilinuVísir/Hulda Margrét

„Ég vil kannski segja það. Því það var mjög kröftug um­ræða í gangi, víðs vegar hjá þeim sem fjalla um í­þróttina á hinum ýmsu stöðum, um að hér væri metnaðar­leysi og að hitt og þetta væri sorg­legt hjá Breiða­bliki. Metnaður er margs konar. Að mínu viti, og okkar, er metnaður fólginn í því að taka á­hættuna. Reyna að vinna með það sem að við höfum í höndunum. Mér finnst ekki metnaður að eyða peningum sem ekki eru til staðar og láta ein­hverja sjálf­boða­liða hlaupa upp að hnjám og líta fram hjá okkar raun­veru­legu verð­mætum sem við erum búin að leggja mikla vinnu í að búa til.

Verður talað um eitt­hvað annað en lið Breiða­bliks og mögu­lega mót­herja við matar­borðið næstu mánuðina?

„Ég held að mamma slökkvi bara á þeim um­ræðum strax,“ svarar Mikael Máni. „Ég held það verði ekki mögu­leiki fyrir okkur að gera það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×