Erlent

Þrjá­tíu ár fyrir á­rásina á mann þing­for­setans

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjáskot úr upptöku líkamsmyndavélar lögreglumanns sem kom á heimili Pelosi-hjónanna. Á myndinni sjást árásarmaðurinn (t.v.) og Paul Pelosi (t.h.) berjast um tak á hamri. Árásarmaðurinn sló Pelosi svo í höfuðið áður en lögreglumenn fengu rönd við reist.
Skjáskot úr upptöku líkamsmyndavélar lögreglumanns sem kom á heimili Pelosi-hjónanna. Á myndinni sjást árásarmaðurinn (t.v.) og Paul Pelosi (t.h.) berjast um tak á hamri. Árásarmaðurinn sló Pelosi svo í höfuðið áður en lögreglumenn fengu rönd við reist. AP/Lögreglan í San Francisco

Karlmaður sem réðst á eiginmann Nancy Pelosi, þáverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, á heimili þeirra í San Francisco var dæmdur í þrjátíu ára fangelsi. Hann var sakfelldur fyrir líkamsárás og tilraun til mannráns

Árásin átti sér stað aðeins viku fyrir þingkosningar í október 2022. David DePape, 44 ára gamall karlmaður, braust inn hjá Pelosi-hjónunum snemma morgun og réðst á Paul Pelosi með hamri. Pelosi, sem er nú 84 ára gamall, höfuðkúpubrotnaði. Eiginkona hans var í Washington-borg þegar árásin var gerð.

Saksóknarar fóru fram á fjörutíu ára fangelsisdóm yfir DePape en alríkisdómari taldi refsingu hans hæfilega þrjátíu ár. DePape á einnig yfir höfði sér lífstíðardóm í Kaliforníu.

DePape viðurkenndi fyrir dómi að hann hefði ætlað að hneppa Nancy Pelosi í gíslingu. Saksóknarar sögðu hann drifinn áfram af öfgahægri samsæriskenningu sem hefur verið kennd við Qanon, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Paul Pelosi tókst að hafa samband við neyðarlínu þegar DePape sá ekki til. DePape sló hann í höfuðið með hamrinum áður en lögreglumenn náðu að yfirbuga hann.

Í bréfi til dómstólsins lýsti Pelosi því að hann glímdi enn við afleiðingar árásarinnar. Hann væri með málmplötu í höfðinu og ætti erfitt með jafnvægi. Hann þjáist af varanlegum taugaskaða í vinstri hendi.

Ýmsir áberandi fulltrúar Repúblikanaflokksins hafa ítrekað haft árásina á Pelosi í flimtingum og jafnvel dreift stoðlausri samsæriskenningu um hana. Elon Musk, eigandi samfélagsmiðilsins X, tók einnig þátt í að dreifa slíkum samsæriskenningum.


Tengdar fréttir

Mynd­band sýnir á­rásina á Pelosi

Lögreglan í Bandaríkjunum hefur birt myndband af árás innbrotsþjófs á eiginmann Nancy Pelosi, fyrrverandi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Innbrotsþjófurinn réðst að hinum 82 ára gamla Paul Pelosi með hamri.

Árásarmaðurinn öskraði „Hvar er Nancy?“

Maðurinn sem braust inn á heimili Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í nótt og réðst á eiginmann hennar með hamri var að leita að henni. Heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs segja manninn hafa öskrað: „Hvar er Nancy?“ þegar hann réðst á Paul Pelosi. 

Brotist inn á heimili Pelosi og ráðist á eiginmann hennar

Paul Pelosi, eiginmaður Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, varð fyrir árás eftir að maður braust inn á heimili þeirra hjóna í San Francisco. Paul var fluttur á sjúkrahús er talið að hann muni ná sér að fullu en Nancy var ekki á heimilinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×