Enski boltinn

Klopp: Ulla konan mín mun segja mér hvað við erum að fara að gera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru öll augu á Jürgen Klopp í lokaleiknum hans sem knattspyrnustjóri Liverpool á Anfield í gær.
Það voru öll augu á Jürgen Klopp í lokaleiknum hans sem knattspyrnustjóri Liverpool á Anfield í gær. Getty/Nick Taylor

Jürgen Klopp kvaddi Liverpool í gær og fullvissaði alla um það að hann væri með engin plön um endurkomu í þjálfun.

Síðasti leikur Liverpool undir stjórn Þjóðverjans var 2-0 sigur á Wolves. Klopp hélt kveðjuræðu eftir leikinn fyrir framan stuðningsfólk félagsins sem troðfyllti Anfield á þessum stóru tímamótum.

Þar talaði Klopp meðal annars um bjarta framtíð Liverpool liðsins og fékk allan leikvanginn til að syngja með sér söng um nýja knattspyrnustjórann Arne Slot.

„Nú tekur bara við einkalíf hjá okkur og ég planaði ekki neitt af því að ég var að klára vinnu mína hér,“ sagði Klopp á blaðamannafundi.

„Líklegast mun Ulla [Sandrock, eiginkona hans] segja mér hvert við erum að fara en ég mun glaður fylgja henni þangað,“ sagði Klopp sem tók meðal annars mynd af blaðamönnunum á síðasta fundi sínum. Það var létt yfir þýska stjóranum.

„Ég veit ekki af hverju það trúir því enginn að ég verði líklegast ekki knattspyrnustjóri aftur en skil það samt því þetta er eins og eiturlyf. Allir vilja alltaf koma til baka og allir vilja vinna þar til þeir eru orðnir sjötíu og eitthvað,“ sagði Klopp.

„Annað fólk getur gert þetta öðruvísi en ég. Ég þarf að vera í þessum af fullum krafti. Það verður að vera neisti og það verður að vera orka. Eins og er þá er tankurinn minn tómur,“ sagði Klopp.

„Það eru augljóslega störf í boði þarna út. Það verða því vissulega tækifæri en ég sit ekki hér og hugsa: Kannski býðst eitthvað eftir eitt ár og ég stekk á það,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×