Viðskipti innlent

Skál flytur úr mathöllinni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Einnig hefur bæst í eigendahópinn.
Einnig hefur bæst í eigendahópinn. Skál

Veitingastaðurinn Skál sem hefur verið til húsa í mathöllinni á Hlemmi verður fluttur á næstunni að Njálsgötu 1. Skál hefur verið mjög vinsæll síðustu árin og hlaut meðal annars Bib Gourmand-viðurkenningu Michelin.

„Með þakklæti efst í huga tilkynnum við hér með að SKÁL flytur frá Hlemmi Mathöll á Njálsgötu 1 bráðlega. Ákvörðunin, sem er afleiðing mikla pælinga um hvernig við sjáum SKÁL halda áfram að þróast, markar næsta kafla í okkar sögu,“ skrifa aðstandendur staðarins í tilkynningu á síðu sína á Facebook.

Í færslunni segja þeir síðustu sjö árin hafa verið ævintýraleg og full af skemmtilegum minningum.

„Okkur líður eins og að við séum búin að gera allt sem við getum á okkar litla bás á Hlemmi og því komin tími til að vaxa og fara í okkar eigið rými. Þar getum við farið enn lengra í okkar hugmyndafræði um gestrisni, þjónustu og skapandi matreiðslu,“ segja þeir.

Flutningarnir eru ekki einu fréttirnar sem koma fram í færslunni heldur einnig að Thomas Lorentzen yfirkokkur og Jonathan Sadler veitingastjóri hafi bæst inn í eigandahópinn ásamt Gísla Matthíassyni kokki sem er einn af upphafsmönnum Skál.

„Ykkar stuðningur hefur verið ótrúlega mikilvægur og okkur hlakkar virkilega mikið til að sýna ykkur allt sem við höfum unnið að á framtíðarheimili okkar að Njálsgötu 1.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×