Viðskipti innlent

Verð­bólgan minnkar en vextirnir hækka

Árni Sæberg skrifar
Arion banki hefur ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum föstum íbúðalánavöxtum.
Arion banki hefur ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum föstum íbúðalánavöxtum. Vísir/Vilhelm

Arion banki hefur ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum um hálft prósentustig. Á föstudaginn lækka innlánsvextir veltureikninga um allt að 0,85 prósentustig.

Í tilkynningu frá Arion banka segir að eftir breytinguna, sem taki þegar gildi, verði verðtryggðir fastir íbúðalánavextir 4,24 prósent. Þeir voru áður 3,76 prósent.

Föstudaginn 26. apríl, taki eftirfarandi breytingar á innlánavöxtum Arion banka gildi:

  • Vextir veltureikninga lækka um allt að 0,85 prósentustig
  • Vextir óverðtryggðra sparireikninga lækka um allt að 0,10 prósentustig
  • Vextir gjaldeyrisreikninga lækka um allt að 0,10 prósentustig

Verðbólgan ekki verið minni í tvö ár

Í morgun var greint frá því að verðbólga undanfarinna tólf mánaða mælist nú sex prósent og heldur áfram að hjaðna. Verðbólga hefur ekki mælst minni í tvö ár.

Í tilkynningu á vef Arion banka segir að vaxtabreytingar útlána taki mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, meðal annars útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgi að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafi aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.

Breytingar á vöxtum lána sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taki gildi í samræmi við skilmála lánanna og tilkynningar um vaxtabreytingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×