Lífið

Hyggjast renna fimm­tíu ís­lenskum lögum inn í karaokívélarnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mikael Harðarson, framkvæmdastjóri Oche Reykjavík.
Mikael Harðarson, framkvæmdastjóri Oche Reykjavík.

Afþreyingar- og veitingastaðurinn Oche sem opnar í Kringlunni í sumar verður fyrsti staðurinn í heiminum með íslensk karaoke lög í boði. Þetta er fullyrt í tilkynningu frá aðstandendum staðarins.

Þar kemur fram að á Oche verði tvö karaokíherbergi í boði. Þar verði allar græjur og yfir 100.000 erlend lög til að velja úr. Þá verði fimmtíu íslensk lög í boði á staðnum sem verður staðsettur þar sem gamla Stjörnutorgið var í Kringlunni.

„Yfirleitt hafa þetta verið bæði fá íslensk lög og óaðgengileg á stöðum sem bjóða upp á karaokí. Söngvarinn hefur þannig þurft að finna lagið í símanum sínum í gegnum streymisveituna YouTube. Þar eru örfá íslensk lög í boði til að tengja við hljóð græjurnar svo þetta hefur verið vesen,“ segir Mikael Harðarson framkvæmdastjóri Oche Reykjavík.

„Nú verður svo sannarlega breyting á þar sem við erum með sérfræðinga í að útsetja karaoke lög og við byrjum á um fimmtíu helstu lagaperlum þjóðarinnar og verður þetta allt klárt í sumar. Nú er sérstök karaoke nefnd sem við erum að setja saman að fara af stað til að meta hvaða lög eiga heima á listanum. Það verður hart barist grunar okkur – enda verður einungis það besta í boði hjá okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×