Erlent

Hægri­flokkar ná saman um myndun ríkis­stjórnar

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn umdeildi Geert Wilders hefur verið mjög áberandi í hollenskum stjórnmálum síðustu áratugi.
Hinn umdeildi Geert Wilders hefur verið mjög áberandi í hollenskum stjórnmálum síðustu áratugi. AP

Geert Wilders, leiðtogi hollenska popúlistaflokksins Frelsisflokksins, segir að fjórir hægriflokkar hafi loks náð saman um myndun nýrrar samsteypustjórnar. Wilders mun ekki gegna embætti forsætisráðherra í þeirri stjórn.

Wilders sagði í samtali við fjölmiðla í gær að samkomulag um myndun stjórnar væri í höfn en að spurningin um hver myndi gegna embætti forsætisráðherra yrði tekin upp síðar. Háværar raddir hafa verið uppi um að nýr forsætisráðherra verði tæknikrati, það er sóttur út fyrir hið pólitíska svið.

Þingkosningar fóru fram í Hollandi fyrir hálfu ári síðan og varð Frelsisflokkur Wilders stærstur þar sem hann tryggði sér 37 þingsæti af 150. 

Wilders fór ekkert í grafgötur við það að hann myndi sækjast eftir forsætisráðherraembættinu í stjórnarviðræðum, en hann er mjög umdeildur í Hollandi þar sem hann hefur meðal annars talað gegn íslam og fyrir mjög strangri innflytjendastefnu. Ljóst má vera að aðrir hægriflokkar hafa ekki sætt sig við að Wilders yrði forsætisráðherra í nýrri stjórn.

Þeir flokkar sem munu mynda nýja stjórn með Frelsisflokknum eru Þjóðarflokkurinn, flokkur Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra, hinn íhaldssami NSC-flokkur og Bændahreyfingin (BBB).

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvað komi fram í stjórnarsáttmála flokkanna.


Tengdar fréttir

Gefst upp á því að verða forsætisráðherra

Geert Wilders, leiðtogi hins hollenska Frelsisflokks segist ekki munu verða næsti forsætisráðherra landsins vegna þess að mögulegir ríkisstjórnarflokkar styðja hann ekki.

Ekki lengur hægt að hunsa Frelsis­flokkinn sem „muni stjórna“

„Það er ekki lengur hægt að hunsa PVV [Frelsisflokkinn]. Við munum stjórna.“ Þetta sagði Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, eftir að ljóst var að flokkurinn hefði unnið stórsigur í hollensku þingkosningunum sem fram fór í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×