Fótbolti

Viðar Ari skoraði og lagði upp í ó­trú­legum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Ari átti frábæran leik í dag.
Viðar Ari átti frábæran leik í dag. HamKam

Viðar Ari Jónsson skoraði eitt af sjö mörkum HamKam í 7-1 útisigri liðsins á Sarpsborg 08 í norsku úrvalsdeild karla í fótbolta. Þá lagði hann upp eitt til viðbótar.

HamKam kom sá og sigraði gegn Sarpsborg í kvöld en staðan var 5-0 í hálfleik. Viðar Ari skoraði fjórða mark leiksins á 28. mínútu og lagði upp fimmta markið tæpum tíu mínútum síðar. Staðan 5-0 í hálfleik.

Brynjar Ingi Bjarnason kom inn af bekknum í síðari hálfleik. Þar skoraði HamKam tvö mörk og Sarpsborg eitt, lokatölur 1-7.

Af öðrum Íslendingum í deildinni var þetta að frétta:

  • Júlíus Magnússon skoraði mark sem var dæmt af í 4-1 sigri Fredrikstad á Loga Tómassyni og félögum í Strømsgodset. Júlíus og Logi léku báðir allan leikinn í sínum liðum.
  • Patrik Sigurður Gunnarsson stóð vaktina í marki Viking sem tapaði 4-1 gegn Lilleström.
  • Anton Logi Lúðvíksson spilaði síðustu tólf mínúturnar þegar Haugesund vann 1-0 sigur á Kristiansund í sínum fyrsta leik eftir brotthvarf Óskars Hrafns Þorvaldssonar.
  • Brynjólfur Andersen Willumsson og Hilmir Rafn Mikaelsson voru í byrjunarliði Kristiansund.

Nýliðar Fredrikstad eru óvænt í 4. sæti með 17 stig, líkt og Molde í 3. sætinu sem hefur leikið leik meira.  Viking er í 6. sæti með 12 stig, Haugesund og Strømsgodset með 10 stig í 9. og 10. sæti. Þar fyrir neðan er Kristiansund með stigi minna á meðan HamKam er nú í 13. sæti með 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×