Viðskipti innlent

Lands­virkjun selur í fyrsta skipti í raf­orku­kaup­höll

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsvirkjun hefur fram að þessu séð sjálf um söluferli á rafmagni til fyrirtækja sem selja heimilum og smærri fyrirtækjum raforku.
Landsvirkjun hefur fram að þessu séð sjálf um söluferli á rafmagni til fyrirtækja sem selja heimilum og smærri fyrirtækjum raforku. Vísir/Vilhelm

Stærsta orkufyrirtæki landsins Landsvirkjun tekur nú í fyrsta skipti þátt í söluferli á rafmagni í gegnum nýstofnaða raforkukauphöll. Fyrirtækið segist einnig skoða þátttöku á öðru markaðstorgi með raforku sem verður opnað síðar.

Þegar raforkukauphöll fyrirtækisins Vonarskarðs hóf starfsemi sína um miðjan apríl var það án þátttöku Landsvirkjunar, langumsvifamesta orkuframleiðanda landsins. Slæm vatnsstaða á hálendinu þýddi að Landsvirkjun var ekki aflögufær um rafmagn.

Síðan þá hefur staðan batnað þannig að Landsvirkjun tilkynnti að hún hefði selt rúmlega níutíu gígavattstundir af raforku fyrir um 700 milljónir króna í söluferli Vonarskarðs fyrir grunnorku í dag. Fyrirtækið tekur einnig þátt í söluferli með svonefndar mánaðarblokkir rafmagns sem fer fram á morgun.

Fyrir þátttökuna greiddi Landsvirkjun Vonarskarði eina og hálfa milljóna króna í fasta þóknun í maí. Fyrirtækið segist ætla að endurmeta þátttöku sína i skipulegum raforkumarkaði þegar reynslan af honum hefur fengist. Þegar hafi þó verið ákveðið að taka þátt í söluferli næsta mánaðar.

Ræða þátttöku í skammtímamarkaði Elmu

Landsnet hefur einnig sett upp sína eigin kauphöll með langtímaraforkuvörur í gegnum dótturfélag sitt Elmu. Það félag hyggur einnig á opnun markaðar með skammtímavörur, kaup á rafmagni innan dags eða með mjög skömmum fyrirvara.

Í tilkynningu sinni segist Landsvirkjun hafa verið í sambandi við Elmu um mögulega þátttöku á skammtímamarkaði sem áformað sé að opni í byrjun næsta árs.

Fram að þessu hefur Landsvirkjun rekið eigin viðskiptavef þar sem hún seldi sölufyrirtækjum raforku. Vonarskarð sá um söluferlið fyrir Landsvirkjun eitt skipti haustið 2022 og í fyrra skipulagði fyrirtækið fyrsta sameiginlega söluferli allra fyrirtækja á heildsölumarkaði með rafmagn. Eigandi Vonarskarðs er fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×