Viðskipti innlent

Magnús eignast Latabæ á nýjan leik

Atli Ísleifsson skrifar
Um þrjátíu ár eru frá því að Magnús Scheving skapaði Latabæ.
Um þrjátíu ár eru frá því að Magnús Scheving skapaði Latabæ. Aðsend

Magnús Scheving hefur í gegnum fjárfestingarfélagið, LZT Holding ehf., náð samkomulagi við Warner Bros, Discovery, um kaup á öllum eignum LazyTown, eða Latabæ. Undir kaupin falla allir sjónvarpsþættir, vörumerki og hugverkaréttindi LazyTown, um heim allan.

Frá þessu segir í tilkynningu. Þar segir að árið 2011 hafi Turner-samsteypan keypt LazyTown og sett þá inn pöntun fyrir tuttugu og sex nýja sjónvarpsþætti. Framleiðslan kostaði á þeim tíma yfir 25 milljónir dollara. 

„Framleiðsla nýju þáttanna var unnin í Studio Lazytown í Garðabænum, líkt og allir sjónvarpsþættir Lazytown, þar á undan. Við það jókst eignasafn Lazytown í 97 hálftíma sjónvarpsþætti fyrir börn og voru á þessum tíma sýndir í 170 löndum og náðu til 500 milljónir heimila.

LazyTown er enn í dag eitt þekkasta vörumerki Íslands og var gríðarlega vinsælt í sjónvarpi úti um allan heim. Þættirnir slógu áhorfsmet í Bandaríkjunum, Þýskalandi, á Englandi og Spáni og víðsvegar í Suður Ameríku og Ástralíu. Einnig unnu þeir til fjölda verðlauna og hlutu meðal annars hin virtu BAFTA sjónvarpsverðlaun.

LazyTown er 30 ára á þessu ári og verður haldið upp á tímamótin en vörumerkið var mikil lyftistöng fyrir íslenskan sjónvarps- og kvikmyndaiðnað á sínum tíma. Skapaði það hundruði starfa í þau 26 ár sem fyrirtækið starfaði hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Magnúsi að það sé mikill heiður að tryggja kaupin á LazyTown og ljúft fyrir sig að ná „barninu sínu“ aftur heim. 

„Ekki síður er mikið gleðiefni að geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að bættri heilsu barna enn á ný um heim allan. Þau börn sem ólust upp við að horfa á LazyTown eru núna að verða foreldrar og þekkja hvað LazyTown stendur fyrir og í því liggja mikil tækifæri.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×