Erlent

Verður næsti for­­maður Skoska þjóðar­­flokksins

Bjarki Sigurðsson skrifar
John Swinney verður að öllum líkindum næsti fyrsti ráðherra Skotlands.
John Swinney verður að öllum líkindum næsti fyrsti ráðherra Skotlands. AP/Stefan Rousseau

John Swinney verður að öllum líkindum næsti formaður Skoska þjóðarflokksins eftir að mótframbjóðandi hans hætti við framboð á síðustu stundu. Þá verður hann einnig líklegast næsti fyrsti ráðherra Skotlands. 

Humza Yousaf, fráfarandi formaður flokksins og fyrsti ráðherra Skotlands, sagði af sér undir lok aprílmánaðar eftir að hafa fengið á sig vantrauststillögu vegna ákvörðunar sinnar um að rjúfa samstarf síns flokks og Græningja. 

Við það hófst ferli innan Skoska þjóðarflokksins til að velja nýjan formann. Tveir fengu nægilega margar tilnefningar, Swinney og svo Graeme McCormick. Sá síðarnefndi ætlar þó ekki að sækjast eftir stöðunni og ákvað þess í stað að lýsa yfir stuðningu við Swinney. 

Þar með verður Swinney að öllum líkindum kjörinn formaður flokksins þegar lokað verður fyrir innsendingu tilnefninga síðar í dag. Til þess að geta fengið kjör verða fulltrúarnir að fá að minnsta kosti hundrað tilnefningar frá tuttugu mismunandi svæðiseiningum innan flokksins. 

Þegar hann verður orðinn formaður mun skoska þingið greiða atkvæði um hvort hann verði nýi fyrsti ráðherra Skotlands. Skoski þjóðarflokkurinn er ekki með meirihluta á þingi en samkvæmt grein BBC er það samt talið líklegt að tillagan verði samþykkt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×