Innlent

Hreppti áttunda sæti og tryggði sér þátt­töku­rétt

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sindri Sigurðsson við matreiðslustörf í Evrópuforkeppninni í Þrándheimi.
Sindri Sigurðsson við matreiðslustörf í Evrópuforkeppninni í Þrándheimi. Aðsend

Sindri Sigurðsson náði áttunda sætinu í Evrópuforkeppni Bocuse d'Or matreiðslukeppninnar í Þrándheimi í vikunni. Árangur Sindra veitir honum þátttökurétt í aðalkeppninni sem haldin verður í Lyon í Frakklandi í janúar 2025. Bocuse d'Or er ein virtasta matreiðslukeppni heims.

Í keppninni í Noregi matreiddi Sindri bæði kjötrétt og fiskrétt fyrir 20 dómara og hafði til þess fimm og hálfa klukkustund. Allt gekk samkvæmt áætlun og árangurin var glæsilegur. Maturinn var borinn fram á annars vegar viðarplötum og hins vegar silfurfati. Sindri, aðstoðarmaður hans og þjálfari voru hæstánægðir með úrslitin.

Nú taka við stífar æfingar Sindra hjá þjálfara hans Sigurjóni Braga. Sigurjón keppti sjálfur í Bocuse d'Or árin 2023 og 2013. Aðstoðarmaður Sindra er Hinrik Örn Halldórsson, og dómari Íslands á hátíðinni var Þráinn Freyr Vigfússon.

Góður Árangur Íslendinga

Fyrsti Íslendingurinn sem tók þátt í Bocuse d'Or var Sturla Birgisson sem keppti árið 1999 og náði fimmta sæti. Síðan þá hafa Íslendingar margoft náð góðum árangri í keppninni. Bestum árangri náðu Hákon Már Örvarsson árið 2001 og Viktor Örn Andrésson árið 2017 sem fengu báðir bronsverðlaun. Bocuse d'Or matreiðslukeppnin hefur verið haldin síðan 1987.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×