Golf

„Hann hefur sjokkerað allan heiminn“

Sindri Sverrisson skrifar
Ludvig Åberg var með bros á vör á lokahringnum á Masters-mótinu í gær.
Ludvig Åberg var með bros á vör á lokahringnum á Masters-mótinu í gær. Getty/Maddie Meyer

Sænska kylfingnum Ludvig Åberg hefur skotið hratt upp á stjörnuhimininn og þrátt fyrir að landa ekki sigri þá sló hann í gegn á sínu fyrsta risamóti, Masters-mótinu, um helgina.

Åberg komst næst því að veita Scottie Scheffler keppni um sigurinn í gær en endaði á -7 höggum, fjórum höggum á eftir Bandaríkjamanninum en þremur höggum á undan þeim sem deildu þriðja sæti.

Árangurinn skilar hinum 24 ára Åberg upp í 7. sæti heimslistans, og færir honum 2.160.000 Bandaríkjadali eða jafnvirði um 305 milljóna íslenskra króna, aðeins ári eftir að hann gerðist atvinnukylfingur.

„Við gætum fengið risatitil hjá Åberg strax á þessu ári,“ segir landi hans, Jesper Parnevik, sem um aldamótin var á meðal fremstu kylfinga heims.

„Hann er ekki bara búinn að sjokkera okkur Svía. Hann hefur sjokkerað allan heiminn með því sem hann hefur afrekað síðasta árið. Ludvig hefur sýnt okkur öllum að hann getur gert hið ómögulega svo við gætum fengið risatitil hjá honum á þessu ári,“ sagði Parnevik.

„Það að vera í þessari stöðu og finna taugaspennuna og pressuna á síðustu holunum… þetta er það sem mann hefur dreymt um. Þetta er það sem ég hef alltaf viljað gera og það er ansi óraunveruleg tilfinning að fá að upplifa það. Ég er svo stoltur af sjálfum mér, teyminu mínu og fjölskyldunni,“ sagði Åberg við Aftonbladet.

Sænsk hvatningaróp og fjöldi skilaboða

Gríðarlegur áhugi myndaðist í Svíþjóð vegna árangurs Åberg á hans fyrsta risamóti:

„Það er ótrúlega gaman að heyra. Ég hef jafnvel heyrt smá sænsku hérna á brautunum og fólk að kalla og hvetja. Svo hef ég líka fengið fullt af skilaboðum í símann í vikunni, í sama anda. Það er auðvitað ótrúlega gaman að finna allan stuðninginn að heiman og vonandi fær sænska þjóðin fleiri svona sunnudagskvöld í framtíðinni,“ sagði Åberg.

Sérfræðingar virðast á einu máli um það að Åberg geti brátt orðið allra fremsti kylfingur heims og hlutirnir hafa gerst hratt hjá honum.

Åberg varð atvinnukylfingur í fyrra og náði strax á fyrsta ári að vinna sig inn í lið Evrópu í Ryder-bikarnum þar sem hann tapaði ekki leik. Þeir Viktor Hovland unnu þar líka metsigur gegn Scheffler og Brooks Koepka í fjórmenningi, 9/7.

Í nóvember síðastliðnum vann Åberg svo sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni, þegar hann vann RSM Classic og jafnaði met Justin Thomas með því að leika holurnar 72 á aðeins 253 höggum. Það skilaði honum í fyrsta sinn sæti á meðal 50 efstu kylfinga heimslistans, og inn á Masters-mótið.

Næsta risamót Åbergs verður svo PGA-meistaramótið um miðjan maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×