Íslenski boltinn

Á­fall fyrir Vestra: Eiður Aron brotinn og lengi frá

Aron Guðmundsson skrifar
Eiður Aron í leik með Vestra í Bestu deildinni
Eiður Aron í leik með Vestra í Bestu deildinni Vísir/Hulda Margrét

Ný­liðar Vestra í Bestu deildinni í fót­bolta urðu fyrir á­falli í dag þegar í ljós kom að mið­vörðurinn reynslu­mikli, Eiður Aron Sigur­björns­son væri ristar­brotinn og yrði frá í allt að tólf vikur.

Frá þessu greinir Vestri í tilkynningu á samfélagsmiðlum en meiðslin má rekja til atviks í seinni hálfleik í leik Vestra við HK í Bestu deildinni í gær en Eiður Aron fékk þá þungt högg á ristina, reyndi að halda leik áfram, en þurfti svo að fara af velli. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Eiður Aron meiðist í leik gegn HK

„Okkur þykir leitt að tilkynna að varnarmaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson er ristarbrotinn eftir grófa tæklingu í leik liðsins gegn HK í gær. Áætlað er að endurhæfingin taki allt að 12 vikur. Við sendum batakveðjur á Eið og hlökkum til að sjá hann á vellinum seinnipart móts,“ segir í tilkynningu Vestra.

Áfall fyrir Vestramenn sem hafa sótt sex stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum sem nýliðar í Bestu deildinni og þá hefur Eiður Aron verið öflugur í vörn liðsins. 

Fyrir hafði danski miðvörðurinn Morten Ohlsen meiðst í fyrstu umferð gegn Fram og því stór skörð höggvin í vörn Vestramanna.

Vestri á næst leik gegn FH í Bestu deildinni um komandi helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×