Viðskipti erlent

Rann­saka hvort Tesla hafi blekkt neyt­endur og fjár­festa

Kjartan Kjartansson skrifar
Hundruð slysa, þar á meðal banaslysa, þar sem Teslur á sjálfstýringu komu við sögu eru til rannsóknar vestanhafs.
Hundruð slysa, þar á meðal banaslysa, þar sem Teslur á sjálfstýringu komu við sögu eru til rannsóknar vestanhafs. Vísir/EPA

Bandarískir saksóknarar rannsaka nú hvort að rafbílaframleiðandinn Tesla kunni að hafa gerst sekur um svik með því að blekkja bæði neytendur og fjárfesta um sjálfstýribúnað bílanna. Fyrirtækið og eigandi þess hafa haldið því fram að bílarnir geti ekið sér sjálfir.

Sakamálarannsókn á fullyrðingum Tesla og Elons Musk, eiganda fyrirtækisins, hófst í október árið 2022. Bandarískar eftirlitsstofnanir rannsaka ennfremur hundruð slysa, þar á meðal banaslysa, sem Teslur með sjálfstýringu í gangi hafa lent í. Framleiðandinn hefur þurft að innkalla fjölda bíla vegna sjálfstýringarinnar.

Nú segir Reuters-fréttastofan að rannsókn saksóknara bandaríska dómsmálaráðuneytisins beinist að því hvort að Tesla hafi gerst sekt um fjársvik með því að veita neytendum misvísandi upplýsingar um sjálfstýribúnaðinn og verðbréfasvik með því að blekkja fjárfesta. Enn liggi þó ekkert fyrir um hvort að ákæra verði gefin út.

Sjálfstýring Tesla hjálpar ökumanni við að stýra, bremsa og skipta um akrein en er ekki að fullu sjálfvirk. Athygli saksóknara beinist aftur að móti að ýmsum fullyrðingum Musk og fyrirtækisins þar sem gefið hefur verið í skyn að bílarnir geti ekið sér sjálfir.

„Manneskjan í ökumannssætinu er bara þar af lagalegum ástæðum. Hann gerir ekki neitt. Bíllinn keyrir sig sjálfur,“ var fullyrt í myndbandi á vefsíðu Tesla. Musk sjálfur fullyrti að bílarnir ækju sér sjálfir án aðkomu mannshandarinnar í myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlum.

Verkfræðingur sem vann fyrir Tesla sagði í skýrslutökum fyrir málsókn sem tengdist banaslysi árið 2022 að myndböndunum hafi verið ætlað að lýsa því hvernig tæknin yrði í framtíðinni og endurspegluðu ekki þáverandi getu sjálfstýringarinnar.

Reuters segir að til þess að ákæra Tesla fyrir svik þurfi saksóknarar að sýna fram á að fyrirtækið hafi farið vísvitandi með ósannindi sem hafi valdið neytendum og fjárfestum skaða. Bandarískir dómstólar hafi áður úrskurðað að ýkjur fyrirtækja í auglýsingum teljist ekki svik.


Tengdar fréttir

Enn einni Teslunni ekið á neyðar­bif­reið vestan­hafs

Ökumaður Tesla-bifreiðar lést og farþegi slasaðist alvarlega þegar henni var ekið á kyrrstæða slökkvibifreið á hraðbraut í norðanverðri Kaliforníu í Bandaríkjunum á laugardag. Brunabílnum hafði verið lagt til að vernda slökkviliðsmenn á vettvangi annars slyss. Fjöldi sambærilegra slysa þar sem Teslur koma við sögu hefur átt sér stað vestanhafs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×