Fótbolti

Spánar­meistarar Real skoruðu fimm

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Real fagna einu af fimm mörkum sínum í kvöld.
Leikmenn Real fagna einu af fimm mörkum sínum í kvöld. EPA-EFE/Juanjo Martin

Það var ekki að sjá að Real Madríd hafi gleymt sér í að fagna Spánarmeistaratitlinum þegar liðið tók á móti Alavés. Meistararnir unnu gríðarlega sannfærandi 5-0 sigur.

Tímabilið hjá Real er hvergi nærri búið þó liðið sé komið búið að tryggja sér sigur á Spáni enda eru Madrídingar komnir í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem þeir mæta Borussia Dortmund þann 1. júní næstkomandi.

Hvað varðar leik kvöldsins þá átti Alavés, sem siglir lygnan sjó, aldrei möguleika. Jude Bellingham kom Real yfir á 10. mínútu eftir undirbúning Toni Kroos. Þegar tæpur hálftími var liðinn var staðan orðin 2-0, Vinícius Júnior með markið eftir sendingu Edouardo Camavinga.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kláruðu heimamenn svo dæmið. Bellingham fann þá Federico Valverde sem kom Real í 3-0. Yfirburðir heimamanna héldu áfram í síðari hálfleik og þegar tuttugu mínútur lifðu leiks lagði Bellingham boltann á Vini Jr. sem kom Madríd 4-0 yfir.

Varamaðurinn Arda Güler skreytti svo kökuna með fimmta markinu þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks, lokatölur 5-0. 

Spánarmeistararnir eru nú komnir upp í 93 stig og geta endað tímabilið með 99 ef þeir vinna báða leikina sem þeir eiga eftir. Alavés er á sama tíma með 42 stig eftir 36 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×