Viðskipti innlent

Spari­sjóður hagnaðist um 205 milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Frá vinstri, Örn Arnar Óskarsson sparisjóðsstjóri, Eiríkur Haukur Hauksson, Elísabet Gunnarsdóttir, Margrét Hólm Valsdóttir og Andri Björgvin Arnþórsson stjórnarmenn. Sigríði Jóhannesdóttur vantar á myndina.
Frá vinstri, Örn Arnar Óskarsson sparisjóðsstjóri, Eiríkur Haukur Hauksson, Elísabet Gunnarsdóttir, Margrét Hólm Valsdóttir og Andri Björgvin Arnþórsson stjórnarmenn. Sigríði Jóhannesdóttur vantar á myndina.

Rekstur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga  gekk vel á síðasta ári. Hagnaður af starfseminni var 204,7 milljónir króna eftir skatta.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá sparisjóðnum en aðalfundur hans var haldinn 8. maí síðastliðinn. Þar segir að um áramótin hafi heildareignir sparisjóðsins verið 13,1 milljarðar króna og hafi aukist um 840 milljónir króna á milli ára. Innlán hafi á sama tíma verið um 11,5 milljarðar króna. Eigið fé sparisjóðsins hafi verið 1,3 milljarður króna í árslok og lausafjárstaða sterk.

Á aðalfundinum hafi Andri Björgvin Arnþórsson, Elísabet Gunnarsdóttir, Eiríkur H. Hauksson, Margrét Hólm Valsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir verið kjörin í stjórn sparisjóðsins. Varamenn séu þeir Bergþór Bjarnason og Pétur B. Árnason.

Styrkja íþróttastarf um ellefu milljónir

Á aðalfundinum hafi verið tilkynnt að sparisjóðurinn muni styrkja íþróttastarf barna og ungmenna hjá aðildarfélögum Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) um samtals ellefu milljónir króna á árinu. Nánari útfærsla verði kynnt aðildarfélögunum á næstunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×