Erlent

Þver­pólitískar til­lögur um við­brögð vegna gervi­greindar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Schumer segir betra að semja lög og samþykkja jafn óðum, í stað þess að freista þess að smíða eina heildarlöggjöf.
Schumer segir betra að semja lög og samþykkja jafn óðum, í stað þess að freista þess að smíða eina heildarlöggjöf. Getty/Anna Moneymaker

Þverpólitískur hópur öldungadeildarþingmanna í Bandaríkjunum hefur lagt fram tillögur að fyrstu skrefum í átt að því að koma böndum á þróun gervigreindar.

Tillögurnar fela meðal annars í sér að 32 milljörðum dala verði varið í rannsóknir og þróun á gervigreind og að þingnefndum verði falið að þróa löggjöf til að bregðast við hinum öru framförum sem eiga sér stað á þessu sviði.

Samkvæmt umfjöllun Washington Post hafa Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, og fleiri háttsettir þingmenn unnið að tillögunum síðustu mánuði.

Hópurinn leggur til að unnið verði að löggjöf til að taka á ýmsum áhyggjuefnum og þeim skaða sem framþróun gervigreindar gæti haft í för með sér, til að mynda mögulegum afskiptum af kosningum.

Schumer segist sjá fyrir sér að í stað þess að þingið freisti þess að smíða eina umfangsmikla löggjöf um gervigreind, þá verði unnið að frumvörpum smám saman eftir því sem þörf krefur.

„Við ætlum ekki að bíða eftir löggjöf sem tekur á öllu er varðar áhrif gervigreindar á samfélagið,“ hefur WP eftir Schumer. „Ef einhver svið eru á undan öðrum ætti að hefjast handa þar.“

Að sögn Schumer má gera ráð fyrir að einhver lög líti dagsins ljós fyrir árslok en að vinnunni verði haldið áfram óháð hver sigrar í forsetakosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×