Enski boltinn

Félagaskiptaglugganum lokað fyrr en vana­lega í sumar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kylian Mbappé er langstærsta nafnið á lausu í sumar. Hann gaf það út á dögunum að hann færi frá PSG eftir tímabilið.
Kylian Mbappé er langstærsta nafnið á lausu í sumar. Hann gaf það út á dögunum að hann færi frá PSG eftir tímabilið. Richard Heathcote/Getty Images

Enska úrvalsdeildin hefur tilkynnt opnunartíma félagaskiptagluggans fyrir næsta tímabil. Lokadagur sumargluggans verður fyrr en vanalega en lokadagur vetrargluggans síðar en vanalega. 

Félagaskiptaglugginn mun fyrst opna föstudaginn 14. júní 2024 og standa opinn til föstudagsins 30. ágúst 2024, en hann hefur vanalega lokað 1. september. 

Þá opnar glugginn aftur strax á nýársdag, 1. janúar 2025, og mun standa opinn til mánudagsins 3. febrúar 2025.

Er þetta gert til að „tryggja samræmi meðal stærstu deildanna og gert í góðu samráði við stærstu deildirnar sem munu allar loka félagaskiptagluggum á sama tíma,“ segir í tilkynningu ensku úrvalsdeildarinnar.  

Það má gera ráð fyrir meira fjöri á félagaskiptamarkaðnum í sumar ef fyrirliggjandi reglubreytingar á fjárhagslögum ensku úrvalsdeildarinnar ganga í gegn. 

Nýlega fékkst munnleg samþykkt fyrir því að fella úr gildi Profit & Sustainability (PSR) reglurnar, sem Everton og Nottingham Forest brutu með tilheyrandi stigafrádrætti. 

Þá er stefnt að því að taka upp svipað regluverk og UEFA notast við í Evrópukeppnum sínum en þar er einblínt á launakostnað, sem má ekki vera hærri en 70% af tekjum félagins, frekar en eyðslu félaganna á leikmannamarkaðnum. 

Vænta má frekari fregna og staðfestingu reglubreytingum þegar ársfundur ensku úrvalsdeildarinnar fer fram í byrjun júní. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×