Skoðun

Hug­sjónir og fræði­mennska – ein­stakt vega­nesti Baldurs í em­bætti for­seta Ís­lands

Rannveig Traustadóttir skrifar

Eins og aðrir landsmenn stend ég frammi fyrir því að velja milli frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Það er mikið gleðiefni að fyrir hendi eru hæfir og frambærilegir kandidatar sem myndu sóma sér vel á Bessastöðum. Ef marka má skoðanakannanir eiga margir erfitt með að velja milli þeirra. Mitt val hefur hins vegar verið auðvelt. Ég kýs Baldur.

Ég þekki Baldur vel. Hann hefur verið samstarfsmaður minn innan Háskóla Íslands og við höfum um verið baráttufélagar fyrir mannréttindum um langt árabil. Baldur er hugsjónamaður og hefur af eldmóði lagt mikilvæg lóð á vogarskálir jafnréttis hér á landi. Hans atorka á því sviði er ómetanleg og er einstakt veganesti í embætti forseta Íslands.

Ég þekki líka fræðimanninn Baldur, sem slíkur hefur hann sérhæft sig í að rannsaka og greina stöðu og hlutverk smáríkja á alþjóðavettvangi. Baldur hefur verið leiðandi á því sviði á heimsvísu og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir þau störf. Sem prófessor í stjórnmálafræði hefur Baldur jafnframt fylgst með stjórnmálum hér heima og erlendis um áratuga skeið. Hann býr yfir dýrmætri þekkingu og reynslu við að greina og meta ólíkar aðstæður og atburði á sviði stjórnmála og stórnsýslu. Fræðilegur bakgrunnur Baldurs er því einstakur sem veganesti í embætti forseta Íslands.

Baldur sameinar það að vera hugsjónamaður og fræðimaður, auk þess að vera hlý, góð og heilsteypt manneskja. Þetta er einstök blanda sem mun nýtast vel í embætti forseta Íslands. Þess vegna kýs ég Baldur.

Höfundur er félagsvísindakona og prófessor emerita.




Skoðun

Sjá meira


×