Skoðun

„Ég kýs homma“

Óli Gunnar Gunnarsson skrifar

Árið 1980 brutum við Íslendingar í sögunni blað þegar við kusum Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta. Var hún þar með fyrsta kona heims sem var lýðræðislega kjörin til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Aðeins fimm árum eftir fyrsta kvennafrídaginn - sem er dálítið magnað ef við pælum í því. Auðvitað var ég ekki fæddur á þeim tíma en ég get ímyndað mér að framboðið hennar hafi ekki verið auðvelt, verandi fyrsta kona Íslandssögunnar til að gefa kost á sér til forseta (ég hlakka bara til að sjá væntanlega sjónvarpsseríu um líf hennar og feril til að læra meira). En ég get rétt svo ímyndað mér hvað sigur hennar árið 1980 veitti mikinn innblástur bæði hér á landi og erlendis.

Í ár er aðeins einn frambjóðandi sem veitir mér innblástur. Einn frambjóðandi sem minnir mig á sögu Vigdísar. Einn frambjóðandi sem getur brotið blað í sögunni. Baldur Þórhallsson getur orðið fyrsti samkynhneigði þjóðkjörni landshöfðingi sögunnar.

Mér finnst við ekki ræða þetta nóg. Hvað þetta er mögulega stórt augnablik fyrir okkur sem þjóð. Auðvitað er Baldur fullkomlega hæfur í þetta starf ofan á allt annað. Hann er prófessor í stjórnmálafræði sem sérhæfir sig í stöðu smáþjóða á heimsvísu (lestu þessa setningu aftur). Hann er hjartahlýr, gáfaður, sanngjarn og traustur. Svo er makinn hans alveg jafn frábær í alla staði og frábær söngvari í þokkabót! Saman mynda þeir eina fallegustu fjölskyldu sem ég get ímyndað mér - ekki þrátt fyrir, heldur einmitt vegna þess að hún er hinsegin.

Við megum ræða þetta. Við verðum að ræða þetta. Fordómafulla liðið (sem er því miður ennþá allt of fjölmennt) leyfir sér að tala um hinseginleikann sem galla. Við eigum þvert á móti að benda á kosti hinseginleikans. Ísland gæti orðið að leiðarljósi þegar kemur að mannréttindum. Baldur gæti heimsótt lönd þar sem samkynhneigð er ólögleg - sem lýðræðislega kjörinn þjóðhöfðingi. Hann gæti veitt fólki innblástur um allan heim.

„Það á ekki að kjósa mig því ég er kona, það á að kjósa mig því ég er maður,“ sagði Vigdís. Með fullri virðingu hefði ég kosið hana vegna hvoru tveggja. Og í ár er valið mitt einfalt. Ég kýs prófessor. Ég kýs pabba. Ég kýs mann. Ég kýs homma.

Ég kýs Baldur.

Höfundur er leikskáld og leikari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×