Atvinnulíf

Eitruð vinnustaðamenning al­geng og marg­faldar líkur á kulnun

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Eftir höfðinu dansa limirnir og þess vegna spyrja greinahöfundar skýrslu McKinsey hvort vinnustaðir séu í raun að taka á réttu málunum þegar verið er að ræða um kulnun starfsfólks. Einn af hverjum fjórum upplifir eitraða hegðun eða menningu á sínum vinnustað samkvæmt alþjóðlegri könnun.
Eftir höfðinu dansa limirnir og þess vegna spyrja greinahöfundar skýrslu McKinsey hvort vinnustaðir séu í raun að taka á réttu málunum þegar verið er að ræða um kulnun starfsfólks. Einn af hverjum fjórum upplifir eitraða hegðun eða menningu á sínum vinnustað samkvæmt alþjóðlegri könnun. Vísir/Vilhelm

Okkur dettur flestum í hug að of mikið álag sé skýringin á kulnun. Nokkuð er meira að segja rætt um að álagið sem leiðir til kulnunar sé oftar en ekki samblanda af tvennu: Vinnu og heima fyrir. Já lífinu sjálfu.

Í niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem McKinsey gerði, má sjá að fleira telst til. Því eitt af því sem margfaldar líkurnar á kulnun fólks er eitruð vinnustaðamenning eða eitruð hegðun.

Það sem verra er, er að eitruð vinnustaðamenning virðist ríkja nokkuð víða. Því samkvæmt þessum niðurstöðum svöruðu að meðaltali einn af hverjum fjórum aðspurðra því að þeir upplifðu einhvers konar eitraða hegðun eða menningu á vinnustaðnum; hvar svo sem í heiminum McKinsey bar niður.

Í skýrslunni er eitruð hegðun á vinnustað skilgreind sem:

„Hegðun sem leiðir til þess að starfsmenn upplifa sig vanmetna, lítilsvirta eða óörugga, til dæmis vegna ósanngjarnrar eða niðrandi meðferðar, fordómar, niðurrif, niðurlægjandi samkeppni, meiðandi stjórnun og nánast siðlaus hegðun stjórnenda eða vinnufélaga.“

Að einn af hverjum fjórum skuli upplifa hegðun sem þessa á vinnustaðnum hlýtur að teljast sláandi. En til þess að setja niðurstöðurnar í samhengi við líkur á kulnun, má einnig sjá eftirfarandi margföldunaráhrif eitraðrar hegðunar á starfsfólk:

Fólk sem starfar í eitruðu umhverfi er átta sinnum líklegra til að lenda í kulnun eða upplifa kulnunareinkenni

Fólk sem starfar í eitruðu umhverfi er sex sinnum líklegra til að segjast ætla að reyna að skipta um starf innan næstu þriggja til sex mánaða.

Í skýrslu McKinsey segir að oft sé litið á kulnun fólks sem persónuleg vandamál þeirra sem glíma við kulnun. Hins vegar spyrja greinahöfundar hvort vinnustaðir séu að horfa rétt á vandann. Eða réttara sagt: Hvort verið sé að taka á réttu málunum?

Skýrsluna má sjá hér.


Tengdar fréttir

„Á heimsvísu fjölgar giggurum stórkostlega“

Árið 2020 var 33% vöxtur á giggstörfum á heimsvísu og samkvæmt rannsókn McKinsey myndi einn af hverjum sex starfsmönnum í hefðbundnu starfi helst vilja starfa sjálfstætt. Spár gera ráð fyrir gífurlega hröðum vexti gigg-hagkerfisins á næstu árum.

Það vilja allir vera „Svalir“

Líney Árnadóttir, sérfræðingur hjá VIRK segir stjórnendur þurfa að þekkja einkenni streitu og vita hvernig streita þróast. Eitt verkfærið sem vinnustaðir geta notað er hinn svo kallaði Streitustigi. Á þessum stiga getur fólk mátað sína líðan miðað við eftirfarandi stig: Svalur – Volgur – Logandi – Bráðnaður – Brunninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×