Innlent

Minni lyfja­notkun og meiri vel­líðan í sér­stöku heila­bilunar­þorpi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Camilla Heier Anglero, einn arkitektanna sem kom að hönnun Carpe Diem.
Camilla Heier Anglero, einn arkitektanna sem kom að hönnun Carpe Diem. Vísir/Arnar

Minni lyfjanotkun, meiri vellíðan og rólegra andrúmsloft er meðal þess sem starfsmenn heilabilunarþorps í Bærum í Noregi hafa orðið varir við í þorpinu. Það er hannað með mannlega nálgun og inngildingu að leiðarljósi. Einn arkítektanna segir tækifæri til að ná slíkum árangri hér á landi.

Norræna arkítektúrskrifstofan hannaði fyrir sveitarfélagið Bærum í Noregi heilabilunarþorpið Carpe Diem, sem tekið var í notkun árið 2020. Hugmyndin kemur frá Hollandi og miðar að því að skapa umhverfi sem fólk þekkir, vera heimilislegt, fjölbreytt og litríkt. Um 140 búa í þorpinu, allt fólk með heilabilun.

„Þorpinu er ætlað að stuðla að auknum lífsgæðum þótt fólk sé í raun mjög veikt. Það er góður aðgangur að nærliggjandi umhverfi og býður alla í nágrenninu inn. Það er hannað eins og þorp en tryggir öryggi allra íbúanna,“ segir Camilla Heier Anglero, ein arkitektanna sem kom að hönnun Carpe Diem. 

Klippa: Mannleg nálgun og inngilding

Camilla var stödd hér á landi á dögunum til að kynna verkefnið á Hönnunarmars. Hún nefnir sem dæmi að útisvæðið sé opið og fjölbreytt, sem skipti miklu máli.

„Þarna eru fjölmargir aðliggjandi garðar og möguleiki á ýmiskonar upplifun. Fólk getur gengið um úti og upplifað ferskt útiloftið,“ segir Camilla.

„Í verri stofnunum hímir fólk kannski bara á göngunum. Hjá okkur getur fólk gengið um og upplifað ýmislegt. Staldrað við á torginu og fengið sér kaffibolla og haldið svo áfram og upplifað margt annað.“

Hún segir starfsmenn þorpsins hafa tekið eftir áhrifum þessarar nálgunar á hönnun þess.

„Starfsfólkið hefur tekið eftir því að streitustigið er mun minna og lyfjagjöf fer minnkandi. Fólk er rólegra en ella og veikindaforföll starfsfólks eru ekki eins tíð, “ segir hún og vonar að þessi nálgun verði innleidd hér á landi.

„Ég veit að þið eruð að skipuleggja hjúkrunarheimili og hafið samið handbók til að tryggja gæðin en engin heilabilunarþorp eru á teikniborðinu eða hugmyndir eins og Carpe Diem hér. Við vonum því að geta sett upp tilraunaverkefni hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×