Veður

Bjart sunnan heiða en þung­búið á Norður- og Austur­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti yfir daginn verður frá einu stigi norðaustanlands, að þrettán stigum á Suðurlandi.
Hiti yfir daginn verður frá einu stigi norðaustanlands, að þrettán stigum á Suðurlandi. Vísir/Arnar

Gera má ráð fyrir tilbreytingarlitlu veðri næstu daga þar sem áttin verður norðlæg og fremur kalt á Norður- og Austurlandi í þungbúnu veðri. Sunnan heiða verður bjartara um að litast og yfir daginn mun sólin ylja þannig að hitinn verði viðunandi.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að í dag hljóði spáin upp á norðlæga átt, þrír til tíu metrar á sekúndu, og léttskýjuðu veðri nokkuð víða. Á Norður- og Austurlandi verður skýjað og þokuloft á köflum.

„Hiti yfir daginn frá 1 stigi norðaustanlands, að 13 stigum á Suðurlandi.

Bætir heldur í vind í kvöld og nótt, norðan 5-13 á morgun og dálítil snjókoma eða slydda norðaustan- og austanlands, en bjartviðri á suðvestanverðu landinu. Hiti breytist lítið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðan og norðaustan 5-13 m/s. Dálítil snjókoma eða slydda norðaustan- og austanlands, en bjartviðri á suðvestanverðu landinu. Hiti 0 til 10 stig yfir daginn, mildast á Suðurlandi.

Á sunnudag: Austan 5-10, en 10-15 með suðausturströndinni. Bjart að mestu vestanlands. Skýjað austantil á landinu og dálítil væta á köflum. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.

Á mánudag og þriðjudag: Norðaustan og norðan 3-10. Skýjað og þurrt að kalla norðanlands, en yfirleitt þurrt og bjart sunnantil. Hiti 2 til 10 stig að deginum, svalast norðaustanlands.

Á miðvikudag og fimmtudag: Suðvestlæg átt. Skýjað og úrkomulítið á vestanverðu landinu, en bjartviðri austantil. Hiti víða 5 til 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×