Körfubolti

Knicks og Pacers hefja nýtt ein­vígi á mánu­dag

Sindri Sverrisson skrifar
Josh Hart setti niður dýrmætan þrist á ögurstundu í Philadelphia í nótt.
Josh Hart setti niður dýrmætan þrist á ögurstundu í Philadelphia í nótt. AP/Matt Slocum

New York Knicks og Indiana Pacers mætast í undanúrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Þetta varð ljóst í nótt þegar bæði lið slógu út andstæðinga sína með því að vinna einvígi 4-2.

Knicks slógu út Philadelphia 76ers með 118-115 sigri, í spennuleik eins og einvígið hefur verið.

Jalen Brunson hélt áfram að fara á kostum fyrir Knicks sem nú eru komnir í undanúrslit austurdeildarinnar annað árið í röð, í fyrsta sinn síðan á síðustu öld. Brunson á stóran þátt í því en hann skoraði 40 stig eða meira í síðustu þremur leikjum einvígisins, og í nótt átti hann einnig tólf stoðsendingar.

Tyrese Maxey náði að jafna metin fyrir Philadelphia í 111-111 en Josh Hart fékk svo frítt þriggja stiga skot, eftir sendingu Brunson, sem hann setti niður þegar 25,6 sekúndur voru eftir. 

Það reyndist gera gæfumuninn fyrir New York-búa sem tóku yfir höllina í Philadelphia með fagnaðarlátum, þrátt fyrir tilraunir heimamanna til að koma í veg fyrir það.

Fyrsti leikur Knicks við Pacers verður í New York á mánudaginn en Pacers slógu út Milwaukee Bucks með því að vinna þá í fjórða sinn í nótt, 120-98.

Giannis Antetokounmpo meiddist í kálfa 9. apríl og náði aldrei að snúa aftur til keppni, og því fór sem fór hjá Milwaukee sem endaði í 3. sæti austurdeildar fyrir úrslitakeppnina.

Obi Toppin skoraði 21 stig fyrir Indiana og T.J. McConnell bætti við 20 stigum, en mennirnir af bekknum hjá Indiana skiluðu 50 stigum í leiknum í samanburði við aðeins 10 stig kollega þeirra hjá Milwaukee.

„Bekkurinn okkar er búinn að vera magnaður alla leiktíðina. Þakkið þessum gæja [McConnell] fyrir það,“ sagði Toppin. „Allir í liðinu okkar þekkja sitt hlutverk og gefa 110 prósent,“ bætti hann við.

Damian Lillard sneri aftur eftir að hafa misst af tveimur leikjum vegna meiðsla og skoraði 28 stig fyrir Milwaukee en það dugði skammt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×