Erlent

Bein út­sending: Starliner ber geim­fara til geimstöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Starliner á toppi Atlas V eldflaugar í Flórída.
Starliner á toppi Atlas V eldflaugar í Flórída. AP/Terry Renna

Starfsmenn Boeing og Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA), ætla í nótt að skjóta geimförum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Þeir verða ferjaðir til geimstöðvarinnar um borð í CST-100 Starliner-geimfari og er þetta fyrsta mannaða geimferð geimfarsins, eftir langt og erfitt þróunarferli.

Þetta verður einnig í fyrsta sinn sem Atlas V eldflaugin verður notuð til mannaðs geimskots. Hún er framleidd af United launch alliance, sem er samstarfsvettvangur Boeing og Lockheed Martin.

Þróun Starliner hefur tengið mun lengri tíma en til stóð upprunalega og hafa gallar og önnur vandræði komið niður á ferlinu. Tvö ár eru liðin frá fyrsta tilraunaskoti Starliner út í geim.

Sjá einnig: Starliner á loks að bera geim­fara

Eðli málsins samkvæmt er nokkuð algengt að geimskotum sé frestað á það sömuleiðis við þetta tiltekna geimskot. Litlar líkur eru taldar á því að veðrið muni koma í veg fyrir geimskotið en tæknilegir gallar geta alltaf stungið upp kollinum.

Að þessu sinni er enginn svokallaður skotgluggi. Geimfarinu verður annað hvort skotið upp á slaginu 02:34 eða því verður ekki skotið upp.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá Boeing í spilaranum hér að neðan. Hún hefst klukkan 22:30 en eins og áður segir, er geimskotið ekki fyrr en klukkan 02:34 í nótt.

Heppnist geimskotið verður Starliner einungis sjötta tegund geimfars í Bandaríkjunum til að bera geimfara út í geim. Geimfarið er hannað til að bera allt að sjö geimfara en að þessu sinni verða þeir einungis tveir.

Um borð í geimfarinu verða þau Barry Wilmore, sem er 61 árs gamall og fyrrverandi flugmaður í sjóher Bandaríkjanna, og Sunita Williams, sem er 58 ára og einnig fyrrverandi flugmaður hjá sjóher Bandaríkjanna. Bæði eiga sér einnig langa sögu hjá NASA og hafa þau varið fleiri en fimm hundruð dögum á braut um jörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×