Viðskipti innlent

Seðla­bankinn heldur stýrivöxtunum ó­breyttum

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mun ásamt félögum sínum í Seðlabankanum gera grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar á blaðamannafundi sem hefst klukkan 9:30.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mun ásamt félögum sínum í Seðlabankanum gera grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar á blaðamannafundi sem hefst klukkan 9:30. Vísir/Arnar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25 prósent.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt á vef Seðlabankans var klukkan 8:30. Næsti vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar er 21. ágúst og munu stýrivextir því hafa haldist í 9,25 prósentum í heilt ár þegar að honum kemur.

„Verðbólga hefur áfram hjaðnað og mældist 6% í apríl. Verðbólga án húsnæðisliðar hefur minnkað hraðar og undirliggjandi verðbólga er komin í 5%. Verðbólguvæntingar hafa lækkað á suma mælikvarða en eru enn yfir markmiði.

Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar enda er peningalegt taumhald þétt og horfur eru á að það dragi úr hagvexti í ár. Spenna í þjóðarbúskapnum er þó meiri en áður var talið og verðbólga minnkar því hægar samkvæmt nýrri spá Seðlabankans.

Áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn eru ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.

Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingunni.

Rökstyðja ákvörðunina

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði- og peningastefnu, munu grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar og kynna efni Peningamála á fréttamannafundi sem hefst klukkan 9:30. 

Hægt verður að fylgjast með útsendingu frá fundinum í spilaranum að neðan.

Vextir verða því sem hér segir:

  1. Daglán 11,0%
  2. Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
  3. Innlán bundin í 7 daga 9,25%
  4. Viðskiptareikningar 9,0%

Tengdar fréttir

Spá því að stýri­vextir haldist ó­breyttir

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Spáin rímar við spá Íslandsbanka sem gerir einnig ráð fyrir að stýrivextir haldist óbreyttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×