Lífið

Baulað á Ísrael sem flaug á­fram í úr­slitin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eden Golan syngur Hurricane á sviðinu í Malmö Arena í kvöld.
Eden Golan syngur Hurricane á sviðinu í Malmö Arena í kvöld. Getty/Jens Büttner

Nú liggur fyrir hvaða þjóðir keppa á úrslitakvöldi Eurovision í Malmö. Síðara undanúrslitakvöldið fór fram í kvöld þegar tíu þjóðir tryggðu sér sæti í úrslitunum. Þátttaka Ísraels þykir afar umdeild en sjónvarpsáhorfendur í Evrópu kusu Ísrael áfram í úrslitin.

Stóru þjóðirnar sem fjármagna keppnina að stærstum hluta, Bretar, Ítalir, Spánverjar, Þjóðverjar og Frakkar, fá sjálfkrafa sæti í úrslitum sem og gestgjafarnir Svíar.

  • Grikkland
  • Sviss
  • Austurríki
  • Armenía
  • Lettland
  • Georgía
  • Eistland
  • Ísrael
  • Noregur
  • Holland

Þau lönd sem komust áfram á þriðjudagskvöldið þegar Hera flutti framlag Íslands, Scared of heights, voru:

  • Serbía
  • Portúgal
  • Slóvenía
  • Úkraína
  • Litháen
  • Finnland
  • Kýpur
  • Króatía
  • Írland
  • Lúxemborg

Baul á Ísrael heyrðist ekki heima í stofu

Sjónvarpsáhorfendur urðu ekki varir við hávært baul í áhorfendum þegar framlag Ísraels var flutt á síðara undanúrslitakvöldi Eurovision. EBU sá til þess að baulið heyrðist ekki heima í stofu.

Ísrael var fjórtánda lagið í röðinni en útsendingu EBU má sjá að neðan.

Það hefur farið fram hjá fæestum Íslendingum að þátttaka Ísraels í keppninni í ár hefur verið í meira lagi umdeild. Fjöldi fólks mótmælti þátttöku Ísraels í Malmö í dag og hefur verið hávær krafa hér á landi um að Ísland sniðgengi Eurovision fyrst EBU, Samband ríkisrekinna sjónvarpsstöðva í Evrópu, meinaði Ísrael ekki þátttöku vegna árása þeirra á Palestínu undanfarna mánuði.

Eurovision er einn áhorfsmesti viðburður í Evrópu ár hvert og margir með kveikt á skjánum þegar framlag Ísraels var flutt í kvöld, það fjórtánda í röðinni. Framlagið virtist fá nokkuð góð viðbrögð í höllinni en annað sýna myndskeið úr höllinni sem eru í dreifingu á X, áður Twitter.

Þar heyrist nokkuð baulað á söngkonuna Eden Golan og félaga hennar í laginu. Hið sama gerðist á dómararennslinu í gær og kvartaði ísraelska sendinefndin við EBU vegna þess. Golan sagði að ekkert myndi stöðva hana í að flytja framlag Ísraela.

Myndbönd úr öðrum hluta salarins í Malmö sýndu töluverð fagnaðarlæti. 

Ekki heyrðust annað en fagnaðarlæti í sjónvarpsútsendingunni þegar tilkynnt var að Ísrael færi áfram. 

Því er spáð góðu gengi í veðbönkum og verður fróðlegt að sjá hvernig fer á laugardag.

Fréttin hefur verið uppfærð með öðru myndbandi frá Malmö í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×