Erlent

Gróður­eldar ógna olíu­vinnslu­mið­stöð í Kanada

Kjartan Kjartansson skrifar
Reykur frá gróðureldunum í Fort McMurray sem ollu mikilli eyðileggingu árið 2016.
Reykur frá gróðureldunum í Fort McMurray sem ollu mikilli eyðileggingu árið 2016. Vísir/EPA

Hundruð íbúum bæjarins Fort McMurray í Alberta í Kanada hefur verið gert að flýja heimili sín vegna gróðurelda sem ógna bænum. Fort McMurray er meðal annars miðstöð olíuvinnslu á tjörusöndunum í Kanada.

Yfirvöld sögðu íbúum í fjórum hverfum í sunnanverðum bænum að hafa sig á brott fyrir klukkan fjögur síðdegis að staðartíma í gær. Rýmingarviðvörun var í gildi fyrir aðra hluta bæjarins og nærliggjandi svæði. Á sjöunda tug þúsunda manna búa í Fort McMurray, að sögn AP-fréttastofunnar.

Eldarnir vekja upp sárar minningar hjá mörgum bæjarbúum því gróðureldar eyðilögðu 2.400 heimili og neyddu fleiri en áttatíu þúsund manns til þess að flýja árið 2016. Mikil eyðilegging var í tveimur hverfanna sem nú hafa verið rýmd.

Jody Butz, slökkviliðsstjóri á svæðinu, segir eldinn nú þó frábrugðinn þeim sem geisaði fyrir átta árum. Slökkvilið sé í góðri aðstöðu til þess að glíma við eldinn. 

Fleiri en 230 gróðureldar brenna nú í vestanverðu Kanada, flestir þeirra í Bresku Kólumbíu þar sem þeir eru um 130 talsins.

Metfjöldi gróðurelda brann í Kanada í fyrra. Fleiri en 235.000 manns þurftu að flýja eldana og að minnsta kosti fjórir slökkviliðsmenn létu lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×