Erlent

Þetta er vitað um á­rásar­manninn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hér má sjá manninn sem er grunaður um að skjóta forsætisráðherrann. Hann er sá sem liggur í jörðinni.
Hér má sjá manninn sem er grunaður um að skjóta forsætisráðherrann. Hann er sá sem liggur í jörðinni. AP

Maðurinn sem er grunaður um að hafa skotið Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, er sagður vera 71 árs gamall. Hann var handtekinn á vettvangi.

Skotárásin átti sér stað í bænum Handlova, um 180 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Bratislava, í dag. Fico er sagður vera með lífshættulega áverka.

Ríkisstjórn Slóvakíu fundaði í bænum í dag. Fico var skammt undan menningarmiðstöð bæjarins. Þar var lítill hópur fólks saman kominn sem ætlaði að heilsa forsætisráðherranum þegar árásarmaðurinn skyndilega stekkur fram með byssu í hendi og skýtur Fico nokkrum sinnum.

Í kjölfarið var árásarmaðurinn handtekinn, en í fyrstu voru það óbreyttir borgarar sem yfirbuguðu hann. Forseti Slóvakíu hefur staðfest að maðurinn sé í haldi lögreglu, en segir að frekari upplýsingar um hann verði opinberaðar síðar.

BBC hefur tekið saman það litla sem vitað er um árásarmanninn. Haft er eftir fréttamanni miðilsins að hann sé 71 árs gamall og sé búsettur í þorpi um miðja Slóvakíu.

Tilefni eða ástæða mannsins fyrir árásinni er enn óljós. Þá kemur fram að skotvopnið sem hann beitti hafi ekki verið ólöglegt.

Myndefni af manninum eftir handtökuna liggur fyrir. Þar sést hann bæði sitja og liggja á götunni með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þar er hann klæddur í ljósbláa skyrtu og bláar gallabuxur.

Verdens Gang segir að maðurinn sé ljóðskáld að nafni Juraj Cintula. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×