Innlent

Ragnar Freyr segist hreinsaður af sök

Samúel Karl Ólason skrifar
Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir, segir niðurstöðuna mikinn létti.
Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir, segir niðurstöðuna mikinn létti. Vísir/Ívar

Ragnar Freyr Ingvarsson, læknir, segir þar til gerða eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá hafa hreinsað hann og aðra lækna af sökum að hafa flett upp upplýsingum í sjúkraskrá í andstöðu við lög. Málinu sé lokið og muni ekki hafa afleiðingar fyrir hann.

Þetta segir Ragnar á Facebook í dag og segir hann þar að eins og hann hafi sagt síðasta sumar, geti sjúklingar treyst því að heilbrigðisstarfsmenn umgangist viðkvæm gögn eins og sjúkraskrá samkvæmt lögum.

„Ég hef alla tíð lagt mig fram við að rækja skyldur mínar sem læknir með hag sjúklinga minna fyrir brjósti og með fagmennsku að leiðarljósi - það mun ég að sjálfsögðu áfram gera,“ skrifar Ragnar Freyr.

Hann segir að þó hann hafi frá upphafi verið sannfærður um farsæla niðurstöðu í málinu sé þetta mikill léttir.

Í færslu sinni segir Ragnar að fréttamaður DV og lögmaður sjúklingsins hafi farið mikinn í fjölmiðlum með ásakanir gegn honum. Vísar hann þar til fréttaflutnings DV frá síðasta sumri um að læknir á fertugsaldri hefði kvartað til Persónuverndar og sakaði Ragnar og fimm aðra lækna um fletta upp sjúkraskrá hennar að tilefnislausu.

Hún sakaði auk þess Landspítalann og Landlækni um ófullnægjandi eftirlit með viðkvæmum persónuupplýsingum.

Konan hafði á árum áður leitað til læknis á Landspítalanum og hélt því í framhaldi fram að læknar sem hefðu ekkert með mál hennar að gera hefðu flett henni ítrekað upp í sjúkraskrá. Konan kvartaði ítrekað til stjórnenda Landspítalans frá 2017 til 2021 en þá sendi hún kvörtun til Landlæknis. Í fyrra kærði hún svo málið til Persónuverndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×