Enski boltinn

Sú markahæsta í sögu ensku deildarinnar yfir­gefur Arsenal og fer væntan­lega til City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vivianne Miedema hefur tvisvar sinnum orðið markadrottning ensku úrvalsdeildarinnar.
Vivianne Miedema hefur tvisvar sinnum orðið markadrottning ensku úrvalsdeildarinnar. getty/Alex Burstow

Hollenski framherjinn Vivianne Miedema yfirgefur Arsenal þegar samningur hennar við félagið rennur út í sumar. Talið er líklegast að hún fari til Manchester City.

Miedema gekk í raðir Arsenal frá Bayern München 2017. Hún hefur síðan þá skorað 125 mörk fyrir Skytturnar. Þar af eru 79 í ensku úrvalsdeildinni en hún er markahæsti leikmaður í sögu hennar.

Sú hollenska varð enskur meistari með Arsenal 2019 og vann auk þess deildabikarinn í þrígang með liðinu.

Miedema sleit krossband í hné í desember 2022 og var frá í tíu mánuði. Hún lék þrettán leiki á þessu tímabili áður en hún gekkst undir minni háttar aðgerð á hné í mars.

Búast má við því að hin 27 ára Miedema verði eftirsótt en eins og staðan er núna eru mestar líkur á því að hún semji við City.

Manchester-liðið er á toppi ensku deildarinnar með 52 stig, þremur stigum á undan Chelsea sem á tvo leiki til góða. Arsenal er svo í 3. sætinu með 47 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×