Sport

Knapi kom sér í vand­ræði með því að keppa í Borat-sundskýlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shane Rose á hesti sínum og hinn eini sanni Borat í sundskýlunni sinni.
Shane Rose á hesti sínum og hinn eini sanni Borat í sundskýlunni sinni. Samsett/Getty

Þrefaldi Ólympíuverðlaunahafinn Shane Rose misbauð mótshöldurum á hestamóti í Ástralíu um helgina. Knapar voru hvattir til að mæta í búningum en Rose fór heldur betur yfir strikið.

Rose vann til silfurverðlauna á síðustu Ólympíuleikum í Tókyó og vonast eftir því að vera einnig með á Ólympíuleikunum í París í sumar. Nýjasta uppátæki hans kemur vonandi ekki í veg fyrir það.

Rose keppti um síðustu helgi á móti á Wallaby Hill brautinni í nágrenni Sydney. Hann mætti í svokallaðri Borat-sundskýlu.

Keppendur hvoru hvattir til að keppa í grímubúningi en enginn bjóst við að hinn fimmtugi Rose myndi láta sjá sig í sundfötunum sem hinn eini og sanni tilbúni Kasaki Borat gerði heimsfræg í samnefndri gamanmynd.

Borat var persóna sem breski grínleikarinn Sacha Baron Cohen lék og sló í gegn með.

Rose keppti reyndar í þremur mismunandi búningum á mótinu því hann var einnig í górillubúningi og sem Duffman úr Simpson-þáttunum.

„Ef búningur minn misbauð einhverjum þá þykir mér það virkilega leitt því það var aldrei ætlun mín,“ skrifaði Shane Rose á Fésbókarsíðu sína.

Hann vonast einnig að þetta útspil hans hafi ekki áhrif á möguleika hans að komast á Ólympíuleikana í París. „Vonandi getum við bara hlegið af þessu eftir nokkra daga og svo verður þetta mál bara úr sögunni,“ skrifaði Rose.

„Ég var í búningi sem þú gætir séð í skemmtigarði eða á ströndinni. Mögulega hefur enginn klæðst þessu á hesti áður en þannig er bara það. Ég tel að ég sé góð manneskja og ég geri mikið fyrir íþróttina og fyrir fólk í krefjandi aðstæðum. Mér finnst ég ekki hafa gert neitt slæmt,“ skrifaði Rose.

„Ég hefði kannski átt að hugsa mig betur um en á sama tíma átti þetta bara að vera smá grín,“ skrifaði Rose.

Móthaldarar á þessu hestamóti voru ekki alveg á saman máli því þeir ákváðu að vísa Rose úr keppni en það er ekki búið að ákveða það hvort hann fái sekt eða verði dæmdur í bann. Það á eftir að fara betur yfir málið og hann sjálfur fær tækifæri til að segja frá sinni hlið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×