Innlent

Pall­borðið: For­­tíðar­draugar og fram­­tíðar­á­skoranir nýrrar ríkis­stjórnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þingmennirnir Þorbjörg Sigríður, Teitur Björn og Þórhildur Sunna eru gestir Pallborðsins í dag.
Þingmennirnir Þorbjörg Sigríður, Teitur Björn og Þórhildur Sunna eru gestir Pallborðsins í dag.

Ráðherrar, gamlir og nýir, taka við lyklavöldum í fjórum ráðuneytum í dag, eftir myndun nýrrar ríkistjórnar í kjölfar samningaviðræðna síðustu daga.

Sitt sýnist hverjum; Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn skömmu eftir að hafa sagt af sér sem fjármálaráðherra sökum vanhæfis við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka og þá fer Svandís Svavarsdóttir í innviðaráðuneytið eftir að hafa átt yfir höfði sér vantrauststillögu sem matvælaráðherra.

Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna þriggja segjast hafa náð saman um málefnin til að ljúka kjörtímabilinu en mikill ágreiningur hefur verið uppi það sem af er liðið og þá sérstaklega milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna.

Fjöldi mála er óafgreiddur sem deilt hefur verið um; útlendingamálin, orkumálin og framtíð hvalveiða, svo fátt eitt sé nefnt. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur sagði í gær að það væri algjörlega óvíst hvort ríkisstjórnin lifði út kjörtímabilið, meðal annars vegna vaxandi ólgu í baklandi VG.

Nýjustu vendingar í pólitíkinni verða til umræðu í Pallborðinu í dag, sem verður sýnt í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 13. 

Gestir Pallborðsins verða Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×