Viðskipti erlent

Ó­lígarkar unnu mál vegna refsi­að­gerða fyrir Evrópu­dóm­stól

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikhail Fridman, annar auðkýfinganna, sem deild Evrópudómstólsins úrskurðaði að hefði ekki átt erindi á refsilista Evrópuráðsins eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Mikhail Fridman, annar auðkýfinganna, sem deild Evrópudómstólsins úrskurðaði að hefði ekki átt erindi á refsilista Evrópuráðsins eftir innrás Rússa í Úkraínu. AP/Pavel Golovkin

Evrópskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að rangt hafi verið að beita tvo rússneska ólígarka refsiaðgerðum vegna innrásar Rússlands í Úkraínu í dag. Sannanir fyrir því að þeir hafi stutt stríðsreksturinn skorti.

Mikhail Fridman og Petr Aven, stórir hluthafar í Alfa Group, einum stærsta fjárfestingasjóðinum í einkaeigu í Rússlandi, voru settir á refsilistann eftir að innrás Rússa hófst í febrúar 2022. Eignir þeirra og fjármunir voru frystir eftir að Evrópuráðið samþykkti refsiaðgerðirnar.

Þeir skutu máli sínu til Almenna dómstóls Evrópusambandsins sem komst að þeirri niðurstöðu í dag að tvímenningarnir hefðu ekki átt að vera á listanum frá febrúar 2022 til mars 2023.

Þegar aðgerðirnar gegn Fridman og Aven voru rökstuddar sagði Evrópuráðið að að Fridman smyrði hjólin fyrir innsta hring Vladímírs Pútín forseta og að Aven væri á meðal þeirra ólígarka sem stæðu Pútín næst.

Almenni dómstóllinn sagði í dag að þó að það kunni að hafa verið rétt að Fridman og Aven væru nánir Pútín þá hefði Evrópuráðið ekki sýnt fram á að þeir hefðu stutt aðgerðir Rússa eða stefnu gagnvart Úkraínu eða að þeir hefðu stutt valdamenn þar fjárhagslega, að því er segir í frétt Reuters. Vera þeirra á refsilistanum hefði því ekki verið réttlætanleg.

Þvinganirnar endurnýjaðar í fyrra

Niðurstaðan þýðir þó ekki að Fridman og Aven séu lausir allra mála því refsiaðgerðirnar gegn þeim voru endurnýjaðar eftir að tímabilið sem dómurinn nær til rann út í fyrra. Þeir hafa einnig kært þá ákvörðun til evrópskra dómstóla. Þá sæta þeir einnig refsiaðgerðum Bandaríkjastjórnar.

Lögmenn Fridman og Aven fögnuðu niðurstöðunni enda væru ásakanirnar á hendur þeim algerlega stoðlausar. 

Fridman, sem er með rússneskt og ísraelskt ríkisfang, stofnaði Alfa Group og er einn auðugasti maður Rússlands. Hann hefur lýst innrásinni sem harmleik og kallað eftir því að „blóðbaðinu“ ljúki. Hann bjó í Bretlandi en er sagður hafa farið aftur til Rússlands eftir að stríð braust út á milli Ísraels og Hamas í fyrra.

Bæði Fridman og Aven voru stjórnarmenn hjá Alfa Bank, stærsta einkareikna banka Rússlands, en hættu eftir að þeir voru beittir refsiaðgerðum til þessa að reyna að forða bankanum frá sömu örlögum, að sögn AP-fréttastofunnar. Evrópusambandið lagði viðskiptaþvinganir á Alfa Bank í mars 2022.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×