Viðskipti innlent

Tekjuhæsti fyrsti ársfjórðungur í sögu Icelandair

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fjöldi farþega til Íslands á fyrsta ársfjórðungi var 284 þúsund.
Fjöldi farþega til Íslands á fyrsta ársfjórðungi var 284 þúsund. Vísir/Vilhelm

Heildartekjur Icelandair á fyrsta ársfjórðungi jukust um ellefu prósent á milli ára og námu 35,8 milljörðum króna. Var þetta tekjuhæsti fyrsti ársfjórðungur í sögu félagsins. Afkoma fjórðungsins var neikvæð um 9,5 milljarða króna samanborið við 8,5 milljarða í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins sem var birt í Kauphöll í dag. Þar kemur fram að farþegatekjur náðu methæðum sem nema 27,5 milljörðum króna og er það aukning um sautján prósent milli ára. Einingakostnaður lækkaði um fimm prósent og farþegum fjölgaði um fjórtán prósent.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir afkoma fyrsta ársfjórðungs hafa verið í takt við væntingar en að áhrif alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgosið á Reykjanesskaga hafi litað rekstrarniðurstöðuna.

„Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48% með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands dróst lítið eitt saman,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.

Fjöldi farþega til Ísland var 284 þúsund manns á þessum fyrsta ársfjórðungi.

„Þrátt fyrir að framboðsaukning á ákveðnum mörkuðum hafi sett þrýsting á fargjöld og sætanýtingu, var áherslan í framboðsaukningu Icelandair hins vegar fyrst og fremst á markaði sem skila félaginu góðum tekjum og arðsemi. Við náðum árangri í lækkun einingakostnaðar, eða um 5%, en hærra hlutfall hagkvæmari flugvéla, stærðarhagkvæmni og meiri skilvirkni i rekstrinum hafði áhrif til lækkunar,“ er einnig haft eftir honum.

Einnig kemur fram að mikill viðsnúningur hafi orðið í fraktstarfsemi fyrirtækisins og nam hann 535 milljónir.


Tengdar fréttir

Fyrstu 757-þotu Íslendinga lagt eftir 33 ára þjónustu

Fyrstu Boeing 757-þotunni sem Íslendingar eignuðust, TF-FIH, hefur núna verið lagt, eftir 33 ára þjónustu hjá Icelandair. Engin flugvélartegund hefur þjónað íslenskum flugfarþegum jafn lengi og þessi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×